Skip to content

Fékk afsagnarflugu í höfuðið

Undanfarið hafa margir fengið þá flugu í höfuðið að afsagnir séu allra meina bót. Þó góð afsögn geti átt vel við, þá má orðið varla nokkuð koma upp á án þess að stokkið sé til og þess krafist að einhver axli pólitíska ábyrgð á uppákomunni með því að segja af sér.Framarlega í flokki þeirra sem hafa tekið tískunni um afsagnir opnum örmum er Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 16. febrúar segir Helgi að nýfallinn dómur vegna skipulags í Flóahreppi sé slíkur áfellisdómur yfir störfum umhverfisráðherra, að einungis ein leið sé fær: „Mér þykir leitt að segja það en þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim að umhverfisráðherra segi af sér.“

Þetta mætti reyndar túlka sem mildun í afstöðu Helga, en hann hvatti í ársbyrjun til þess að umhverfisráðuneytið í heild sinni væri lagt niður. Enda stangast tilvist ráðuneytisins væntanlega á við eitt meginmarkmið í lögum Samtaka iðnaðarins, sem er að ryðja öllum hindrunum úr vegi starfsemi iðnaðarins.
Helgi vill sumsé að Svandís Svavarsdóttir taki pokann sinn fyrir að fá á hreint hvort lög leyfi Landsvirkjun að bjóða ýmsa fyrirgreiðslu sem virðist alls ótengd útgjöldum sveitarfélags, til að liðka fyrir vinnu við aðalskipulag vegna virkjunar. Er nema von að ráðherranum hafi brugðið?

Eins og spurt var hér á Smugunni í vikunni: Hvað kemur vatnsveita skipulagi Urriðafossvirkjunar við?

Að fengnum dómi Hæstaréttar stendur stóra pólitíska spurningin eftir: Þykir almenningi eðlilegt að lögin leyfi fyrirgreiðslu af þessu tagi, eða væri almannahagsmunum betur borgið með breyttu lagaumhverfi? Mætti ekki frekar krefjast þess að umhverfisráðherra endurskoði lagaumhverfið með almannahagsmuni fyrir augum og lagi það sem betur mætti fara? Er ekki fullhart að krefjast þess að ráðherrann segi af sér?

Fordæmi slíkrar naflaskoðunar er nærtækt, og ætti að vera Helga Magnússyni vel kunnugt. Fyrir stuttu féll dómur suður í Strassborg, sem snerti lagaumhverfi Samtaka iðnaðarins. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu, að iðnaðarmálagjald sem lagt var á veltu íslenskra fyrirtækja stangaðist á við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi. Dómurinn var SI að vonum mikil vonbrigði, enda munaði eflaust um þær 420 milljónir króna sem samtökin fengu í gegnum iðnaðarmálagjald árið 2010. Í fréttatilkynningu sagði að niðurstaðan hefði komið SI sérstaklega á óvart, þar sem hún stangaðist á við tvo dóma Hæstaréttar. En meira að segja Hæstarétti Íslands getur skjöplast.

Viðbrögðin við áfellisdómi mannréttindadómstólsins voru hvorki sú að krefjast afsagnar iðnaðarráðherra, sem innheimti ólöglegu gjöldin, né að formaður Samtaka iðnaðarins segði af sér, fyrir að þiggja þau. Viðbrögðin við áfellisdómi vorsins 2010 voru að „óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um framhald málsins og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við.“ Eða: hvernig ríkið myndi redda samtökunum sínum 420 milljónum með einhverjum öðrum ráðum.

Úr varð hins vegar að iðnaðarráðuneytið lagfærði lagaumhverfið, þannig að ekkert var lagt til reksturs Samtaka iðnaðarins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011. Eðlilega, myndu margir segja, enda byggði framlagið á stjórnarskrárbroti.

Það er nokkuð undarlegt að fylgjast með jafnróttækum sinnaskiptum og hjá formanni Samtaka iðnaðarins. Í apríl á síðasta ári þótti honum dómur Mannréttindadómstóls Evrópu ekki þurfa að leiða til afsagnar, en eðlilegt væri að bæta úr ágöllum sem dómurinn leiddi í ljós. Tæpu ári síðar þykir sama formanni dómur Hæstaréttar vegna Flóahrepps hins vegar kalla á afsögn umhverfisráðherra.

Vera má að breyttar áherslur formanns SI séu viðbrögð við tekjumissinum sem samtökin urðu fyrir nú um áramótin. Nú reiða samtökin sig nær alfarið á óblíð markaðsöflin eftir að 420 milljóna ríkisstyrkurinn var dæmdur ólöglegur. Framlög til þeirra ráðast því að nokkru af því hversu hátt heyrist í þeim. Og kröfur um afsögn ráðherra eða niðurlagningu ráðuneytis eiga það til að skapa mikil læti.

En kannski er hér um raunverulega nýjan anda innan Samtaka iðnaðarins að ræða. Sé svo, þá myndi formaður SI í dag sennilega vilja senda sjálfum sér í apríl á síðasta ári opið bréf með kröfunni: „Mér þykir leitt að segja það en þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim að formaður Samtaka iðnaðarins segi af sér.“

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.