Skip to content

Óæskileg endurvinnsla á rammaáætlun

Aukin end­ur­vinnsla er af hinu góða, en alltaf fellur til eitt­hvað efni sem ekki er hægt að end­ur­vinna. Þess vegna kemur á óvart að núver­andi umhverf­is­ráð­herra ætli að end­ur­vinna ramma­á­ætlun Sig­rúnar Magn­ús­dóttur og leggja hana óbreytta fram. Bæði er ljóst að for­sendur áætl­un­ar­innar hafa gjör­breyst og ekki síður að verk­lag þáver­andi ráð­herra stóðst ekki þær kröfur sem eðli­legt er að gera til ramma­á­ætl­un­ar.

Ramma­á­ætlun snýst um að vega saman ólíka hags­muni á hverjum tíma og flokka virkj­un­ar­kosti á grund­velli fag­legra sjón­ar­miða í nýt­ing­ar-, bið- eða vernd­ar­flokk. Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan verk­efn­is­stjórn ramma­á­ætl­unar lagði loka­hönd á þær til­lögur sem umhverf­is­ráð­herra seg­ist nú ætla að leggja fram óbreyttar hafa ýmsar for­sendur breyst. Mestu munar þar um þá ákvörðun að stofna þjóð­garð á mið­há­lend­inu, sem gerir allt eldra mat á virkj­un­ar­kostum innan þess svæðis úrelt.

Það kemur veru­lega á óvart að umhverf­is­ráð­herra Vinstri grænna ætli að bera fram til­lögu for­vera síns úr Fram­sókn­ar­flokknum með þeim rökum að hann vilji standa vörð um ferli ramma­á­ætl­unar. Miklu nær er að segja að með fram­lagn­ingu óbreyttrar til­lögu sé verið að standa vörð um léleg vinnu­brögð umhverf­is­ráð­herra Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Á sínum tíma var ítrekað bent á það að miklir ann­markar hefðu verið á und­ir­bún­ingi máls­ins. Þökk sé sinnu­leysi þáver­andi rík­is­stjórnar Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks var verk­efnið sett allt of seint af stað og verk­efn­is­stjórn og fag­hópum því skammt­aður naumur tími – um eitt ár í stað þriggja. Í fram­hald­inu tók ráð­herra sér aðeins fjóra daga til að vega og meta til­lögu verk­efn­is­stjórnar út frá umsögnum almenn­ings og hags­muna­að­ila áður en hún lagði til­lög­una óbreytta fyrir þingið í sept­em­ber 2016. Sú flýti­af­greiðsla skrif­ast á það að boða þurfti til kosn­inga í kjöl­far Wintris-­máls­ins, en getur ekki talist til fyr­ir­mynd­ar.

Þegar núver­andi rík­is­stjórn var mynduð lýsti ég áhyggjum yfir því stjórn­ar­sátt­mál­inn minnt­ist hvergi á hvernig vinna ætti með ramma­á­ætlun á kjör­tíma­bil­inu. Greini­lega ekki að ástæðu­lausu miðað við þá nið­ur­stöðu sem loks­ins virð­ist hafa náðst á milli stjórn­ar­flokk­anna þriggja: Að end­ur­vinna til­lögu sem tveir þeirra lögðu fram á handa­hlaupum í fyrri rík­is­stjórn.

Greinin birtist á Kjarnanum 7. janúar 2020.