Staða flóttafólks hefur verið mikið í umræðunni á undanförnum árum, samhliða því að fólki á flótta hefur fjölgað hratt um allan heim. Með reglulegu millibili heyrum við sögur fólks sem í fjölmiðlum hefur verið synjað um vernd hér á landi og bíður brottvísunar. Þessar sögur stríða gegn réttlætiskennd almennings sem er með skýrt ákall: Tökum betur á móti hælisleitendum, sérstaklega börnum og fólki sem glímir við veikindi.
Annað er á döfinni í frumvarpi um breytingar á stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem dómsmálaráðherra lagði fram í dag. Stefið í gegnum allt frumvarpið er: Hvernig synjum við fleiri umsóknum? Hvernig gerum við það hraðar? Hvernig komum við í veg fyrir að fólk komi? Og þar er ekki stafkrókur um bætta stöðu barna á flótta, þrátt fyrir ítrekuð fyrirheit ýmissa ráðherra í þá áttina.
Frumvarpið er nánast óbreytt frá því sem Sigríður Andersen lagði grunninn að fyrir ári. Því er „ætlað er að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur,“ eins og það er orðað í greinargerð. Það sem snýst um að geta hafnað sem flestum umsóknum á formsatriðum, eins og að viðkomandi njóti á pappír verndar í öðru landi, án þess að horfast í augu við að sú vernd sem mörg ríki bjóða upp á stenst ekki lágmarkskröfur.
Það yrði stórslys að gera þetta frumvarp að lögum.
Stærsta afturförin yrði í verndarmálum, þ.e. málum hælisleitenda sem eru með alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Til stendur að flytja þau úr hópi þeirra mála sem fá efnismeðferð ef sérstakar ástæður mæla með, þannig að ekki þurfi að líta sérstaklega til þess að um sé að ræða ung börn eða einstaklinga sem glíma við veikindi. Þetta myndi líka opna að nýju fyrir endursendingar fólks til Ungverjalands og Búlgaríu. Þar reka stjórnvöld svo harðvítuga hælisstefnu að Kærunefnd útlendingamála hefur síðustu tvö ár ekki talið forsvaranlegt að senda fólk þangað, ekki einu sinni þótt það eigi að heita að njóta verndar þar í landi. Verndarmál munu skv. frumvarpinu fá efnismeðferð á grundvelli þröngra formsatriða eins og þess að farið sé yfir tímafresti. Eða: Hælisleitendur með vernd í öðru ríki geta átt von á að fá vernd á Íslandi vegna þess að kerfið klikkar, en ekki vegna þess að þeir er í viðkvæmri stöðu. Er það ekki öfugmæli í kerfi sem er ætlað að hjálpa þeim sem höllustum fæti standa?
Þessa dagana verður æ ljósara að leiðin til að takast á við sameiginlegar áskoranir heimsbyggðarinnar er samstaða. Vandi fólks á flótta er vandi okkar allra. Ríki eins og Grikkland og Ítalía voru ekki í stakk búin til að bera þungann af straumi flóttafólks og hafa ítrekað sent út neyðarkall um að önnur lönd beri þungann með þeim. Hvers vegna leggur ríkisstjórn Íslands þá enn og aftur áherslu á að endursenda flóttafólk þangað, inn í hæliskerfi sem veita enga raunverulega vernd? Hvar er mannúðin í því? Hvar er samstaðan?
Greinin birtist á stundin.is 11. apríl 2020