Á þessum degi, þann 20. ágúst, árið 2018 skrópaði Greta Thunberg í skólanum og kom sér fyrir með kröfuspjald fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi. Á þeim tíma sem er liðinn hefur hún ekki bara sett mark sitt á umræðu um loftslagsmál og baráttuna fyrir hertum aðgerðum – það hafa orðið straumhvörf.
Ein leið til að gera sér grein fyrir því hversu mikið umræðan hefur breyst er að skoða aukna tíðni frétta af loftslagsmálum í íslenskum fjölmiðlum, eins og umhverfis- og auðlindaráðherra gerði fyrir rúmu ári. Árið 2017, síðasta heila árið áður en Greta setti loftslagsverkföllin af stað, var fjallað um loftslagsbreytingar í tæplega 1000 fréttum. Árið 2019, fyrsta heila árið eftir upphaf loftslagsverkfallanna, voru fréttirnar 2500 talsins.
Dregur úr umfjöllun um loftslagsmál
Því miður hefur okkur reynst erfitt að halda fókus á baráttunni gegn loftslagsbreytingum samhliða því að takast á við Covid-19. Þetta sést á tíðni frétta af loftslagsmálum, sem á þessu ári eru orðnar jafn sjaldséðar og fyrir þremur árum.
Þessa dagana er rætt um það hvernig samfélagið á að geta lifað með Covid-19 til lengri tíma. Það snýst ekki bara um það hvernig við lögum okkur að sóttvarnarráðstöfunum eða bregðumst við efnahagslegum afleiðingum hennar. Að lifa við breytt ástand þýðir líka að halda áfram fókus á öllu hinu sem skiptir máli.
Viðbrögð við Covid-19 og loftslagsbreytingum verða að fléttast saman
Um allan heim er kallað á það að viðbrögð við afleiðingum Covid-19 þjóni á sama tíma fleiri mikilvægum markmiðum á borð við baráttuna gegn loftslagsbreytingum og því að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þetta ákall kemur ekki bara frá hugsjónafólkinu sem hefur mótmælt hvern föstudag í tvö ár, heldur er þetta kjarninn ráðleggingum og stefnumörkun flestra alþjóðastofnana. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna lagði t.d. áherslu á þetta í ávarpi á Degi jarðar. Hann sagði að uppbyggingin eftir Covid-19 yrði að vinna í þágu græns hagkerfis frekar en hins gráa og að ríkisstuðningur við fyrirtæki yrði alltaf að vera bundinn umhverfisskilyrðum.
Þessar áherslur, sem eru nánast orðnar að norminu um allan heim, hafa ekki enn náð að móta viðbrögð íslenskra stjórnvalda við Covid-19. Sérstaklega er þar áberandi hversu illa er tekið í allar hugmyndir um að skilyrða ríkisstuðning til fyrirtækja.
Tregða til breytinga á þingi
Gott dæmi um tregðu stjórnarliða til að skilyrða stuðning til fyrirtækja er þegar Oddný Harðardóttir lagði í vor til að fyrirtækjum yrði gert að færa loftlagsbókhald sem skilyrði fyrir uppsagnarstyrkjum. Þingmaður Vinstri grænna sagðist vera „algerlega sammála því að skilyrði eigi að vera um það almennt að fyrirtæki þurfi að færa slíkt loftslagsbókhald og skila því inn,“ en hann var ekki alveg viss hvort „það er rétti vettvangurinn þegar fyrirtækið er í björgunaraðgerðum að setja þetta skilyrði.“ Þessi ágæta tillaga Oddnýjar, sem hefði þess vegna getað komið beint af skrifborði aðalritara S.þ., var felld með öllum atkvæðum stjórnarliða ásamt dyggum stuðningi Miðflokksins.
Mikill meirihluti Íslendinga vill að stjórnvöld taki loftslagsbreytingum jafn alvarlega og Covid-19, en auðvitað útilokar annað ekki hitt. Hvert einasta mál sem þingið afgreiðir verður að meta út frá áhrifum þess á loftslagsmálin og sameiginlega framtíð okkar allra. Alþingi má síst af öllu missa þennan fókus þegar mikil orka fer í að veita gríðarlegum fjárhæðum í neyðaraðgerðir sem hafa mikil áhrif á samfélagið. Við höfum ekki efni á að láta sigurinn á Covid-19 kosta okkur baráttuna við loftslagsbreytingar.
Greinin birtist á Kjarnanum 20. ágúst 2020.