Tillögur um að tíðavörur séu aðgengilegar ungu fólki án endurgjalds hafa ítrekað verið lagðar fram af ungmennaráðum sveitarfélaga og undantekningarlaust verið tekið vel í þær. Einhverra hluta vegna verður samt aldrei neitt úr framkvæmdinni á þessu sjálfsagða sanngirnismáli, því eitthvað kallar alltaf á ítarlegri skoðun.
Í haust var skorað á Alþingi að fella niður skatt á tíðavörum og að ungu fólki verði boðið upp á fríar tíðavörur í skólum og félagsmiðstöðvum. Með þessu sögðu Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórsdóttir að mætti á sama tíma standa með einstaklingum með leg og vera til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Síðan þá hefur reyndar annað land tekið fram úr okkur, það gerðist í haust þegar skoska þingið samþykkti að bjóða upp á ókeypis tíðavörur fyrir öll þau sem á þurfa að halda.
Þær Anna og Saga mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í tengslum við fjárlagavinnu þingsins og fengu góðar viðtökur. Þegar upp var staðið sagðist meirihluti nefndarinnar hafa ríkan skilning á hugmyndinni um afnám virðisaukaskatts á tíðavörur, en að hún krefðist ítarlegri skoðunar. Á mánudag samþykkti Alþingi lög um skatta og gjöld með breytingartillögum meirihluta nefndarinnar, þar sem ekki var hreyft við skattinum á tíðavörur.
Hin nefndin sem Anna og Saga skoruðu á var fjárlaganefnd, sem getur fundið fjármagn til að tryggja aðgengi að ókeypis tíðavörum. Nú eru komnar fram breytingartillögur frá meirihlutanum við fjárlagafrumvarpið, þar sem ekki eru lagðar til breytingar í þá áttina.
Ég hef þess vegna sjálfur lagt fram breytingartillögu um ókeypis tíðavörur sem þingið getur tekið afstöðu til. Tillagan snýst um að Ísland verði með svipað kerfi og Skotar. Annars vegar verði tíðavörur aðgengilegar í grunn- og framhaldsskólum og hins vegar geti lágtekjufólk nálgast þær ókeypis í gegnum opinberan aðila. Heilbrigðisráðherra verður falið að útfæra kerfið í samstarfi við aðra ráðherra og sveitarfélög.
Til að slá á kostnað við að taka upp skoska kerfið fyrir ókeypis tíðavörur setti ég upp eftirfarandi reikningsdæmi.
Hópur 1: 50% af öllu fólki á aldrinum 13 til 19 ára = 15.500 einstaklingar
Hópur 2: 5% af öllu fólki á aldrinum 20 til 45 ára = 7.000 einstaklingar
Alls eru þetta 22.500 einstaklingar. Miðað við 1000 kr. í tíðavörur á mánuði rúnna ég heildarkostnað ríkissjóðs upp í 280 milljónir og geri tillögu um að sú upphæð bætist við fjárlög.
Þetta kann að virðast há upphæð, en til samanburðar lagði meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar til að hækka sóknargjöld um sömu upphæð á sama tíma og hann treysti sér ekki til að fella niður bleika skattinn. Og í samhengi fjárlaga sem telja milljón milljónir króna, þá er það lítið gjald til að tryggja þeim sem þurfa aðgang að þessari nauðsynjavöru.
Birtist upphaflega á stundin.is 10. desember 2020.