Stuttu fyrir þinglok felldu stjórnarliðar breytingartillögu um fjölgun jöfnunarsæta og jöfnun atkvæðavægis sem hefði tryggt að flokkar fái þingmenn í meira samræmi við fylgi sitt. Miðað við nýjustu útreikninga er núverandi skekkja líkleg til að gagnast stjórnarflokkunum til að ná inn fleiri þingmönnum en fylgi þeirra segir til um – en hana hefði mátt leiðrétta með einfaldri breytingu á kosningakerfinu þegar þingið samþykkti ný heildarlög um kosningar.
Í hádegisfréttum RÚV í dag var haft eftir þingflokksformanni Vinstri grænna að tillagan hefði verið felld vegna þess að þörf hefði verið á meiri umræðu innan þingsins. Umræðan var samt töluverð.
Breytingartillagan var felld af öllum þingmönnum stjórnarflokkanna og Miðflokksins 12. júní, við afgreiðslu frumvarps til nýrra kosningalaga, en breytingartillagan sjálf kom fram 8. júní. Hins vegar á hún sér rætur í tveimur þingmannafrumvörpum sem komu fram löngu fyrr.
Píratar lögðu í febrúar fram frumvarp um fjölgun jöfnunarsæta, sem mælt var fyrir 12. mars. Þá strax sýndu kannanir að veruleg vandræði væru í uppsiglingu við úthlutun þingsæta í alþingiskosningum vegna skorts á jöfnunarsætum til að ná utan um þann fjölda flokka sem stefnir í að nái kjöri.
Í haust lagði Viðreisn fram frumvarp um jöfnun atkvæðavægis, sem mælt var fyrir 15. október. Leið Viðreisnar er einföld útfærsla sem rúmast innan einfaldrar lagabreytingar og krefst því ekki breytinga á stjórnarskrá.
Umræðan átti sér ekki bara stað í tengslum við þessi tvö þingmál stjórnarandstöðunnar í vetur, heldur var þessum sjónarmiðum komið rækilega á framfæri í umsögnum við kosningalagafrumvarpið. Þar ber helst að nefna umsögn Ólafs Þ. Harðarsonar, sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk í hendurnar 25. janúar.
Tillagan sem þingmenn stjórnarflokkanna og Miðflokksins höfnuðu í júní var lokapunktur umræðu sem hófst í október, janúar eða mars, eftir því hvernig á það er litið. Þingið þurfti ekki meiri tíma fyrir umræðu. Það þurfti bara vilja. Vilja sem stjórnarliða (auk Miðflokksins) skortir. Þegar á reyndi treystu stjórnarliðar sér ekki til að styrkja lýðræðið með því að draga úr misrétti kosningakerfisins. Misrétti sem nýtist stjórnarflokkunum sérstaklega og gerir sum atkvæði jafnari en önnur.
Birtist upphaflega á Vísi, 2. ágúst 2021.