Skip to content

Kveðjum olíudrauminn í haust

Nú eru fyrstu alþingiskosningarnar síðan loftslagsmálin færðust á stóra svið stjórnmálanna, þökk sé baráttu grasrótarfólks og sérstaklega ungs grasrótarfólks eins og Gretu Thunberg. Það er gaman að hluti af því er að bann við olíuleit sé orðið eitt af málum kosningabaráttunnar! Síðast þegar olíuleit varð að kosningamáli var það árið 2009 þegar Kolbrún Halldórsdóttir var harðlega gagnrýnd, fyrir að vera umhverfisráðherrann sem setti spurningarmerki við að fara hefja olíuleit. Í framhaldi datt hún af þingi og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna setti olíuleitarævintýrið (eða -martröðina) af stað. Sem betur fer lauk því og sem betur fer hafa báðir flokkarnir síðan sett sér þá stefnu að vera á móti olíuleit.

Þegar ég byrjaði að hreyfa við málinu á þingi með því að leggja fram frumvarp um olíuleitarbann þá var lítill áhugi. Af hverju ætti að þurfa að standa í þessu, þegar engin leit væri í gangi? En þess þá heldur – af hverju ekki að setja tappann strax í? Orkustofnun fannst það óráðStjórnarflokkarnir 2021 treystu sér ekki til að segja það, heldur svæfðu frumvarp um bann við olíuleit með frávísunartillögu. Ef Ísland ætlar að berjast af alvöru gegn loftslagsbreytingum, þá er olíuleitarbann algjörlega borðleggjandi.

Ríkisútvarpið birti í síðustu viku þáttinn Hvað getum við gert? þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna svöruðu einfaldri spurningu: Hvort þeir muni beita sér fyrir banni við olíu- og gasleit. Svörin voru áhugaverð. Merkilegast er að meirihluti svaraði játandi, sex af níu flokkum. Það er mjög jákvætt. Þar á meðal eru reyndar Framsókn og Vinstri græn, sem standa að stjórnarmeirihluta sem beitti sér gegn því að frumvarp um olíuleitarbann yrði samþykkt í vor – en batnandi flokkum er best að lifa. Sjálfstæðisflokkurinn er síðan úti að aka, svarar hvorki af né á – þó svo að sjálfur iðnaðarráðherrann hafi verið send í viðtalið. Tveir flokkar – Flokkur fólksins og Miðflokkurinn – eru síðan risaeðlur þáttarins og vilja leita að olíu.

Mikið og fljótt

Olíuleitarbann hjá landi eins og Íslandi, þar sem enn hefur engin olía verið unnin, ætti að vera einfalt skref en sterk yfirlýsing. En þau lönd sem eru að vinna olíu þurfa einnig að skipta um kúrs. Nýlega kom út grein í Nature, þar sem gerð er tilraun til að meta hversu mikið þarf að draga úr olíuvinnslu ef við ætlum að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður. Svarið er skýrt: Mikið og það þarf að gerast fljótt.

Þó að greinarhöfundar séu mjög varkárir í útreikningum sínum, þá er ljóst að til að ná markmiðinu um 1,5 gráðu hlýnun þarf að hætta við öll áform um nýja og aukna olíuvinnslu. Frekari fjárfesting í olíuiðnaði myndi í dag annað hvort leiða til offramleiðslu, með hræðilegum loftslagsáhrifum, eða offjárfestingar sem myndi enda sem strandaðar eignir – fjárfesting í olíuinnviðum sem innan skamms má ekki nota lengur. Hvort sem það eru ríkisstjórnir eða fjármálastofnanir, þá þarf að hætta að gefa leyfi til olíuleitar eða styðja slíka leit fjárhagslega.

Ef við rýnum bara í það sem snýr að nágrenni Íslands, þá þarf Evrópa að sjá til þess að 72% af þeirri olíu og 43% af því gasi sem vitað er um í vinnanlegu magni líti aldrei dagsins ljós. Við þessar aðstæður lýsir ótrúlegu sinnuleysi að norsk og bresk stjórnvöld séu enn að gefa út leyfi fyrir nýjum olíuborpöllum. Og í þessari stöðu segir sig sjálft að Ísland á ekki að slást í hóp þeirra landa sem gleyma langtímahagsmunum framtíðarinnar þegar stundargróða olíunnar er dinglað fyrir framan þau.

Tækifæri á Íslandi og í Noregi

En það er ekki bara á Íslandi sem bann við olíuleit hefur orðið heitt kosningamál þetta haustið. Í gær fóru fram þingkosningar í Noregi. Eitt mesta olíuframleiðsluríki heims, þar sem enn er verið að gefa út ný leyfi til olíuleitar og stefnt að aukinni framleiðslu. Tvískinnungurinn er náttúrulega hrópandi, að ríkisstjórnin hefur á sama tíma stært sig af því að vera með mikinn metnað í loftslagsmálum. Líkt og hér á landi, þá virðist sem betur fer stærstur hluti norskra stjórnmálaflokka átta sig á stöðunni og tala fyrir því að breyta um kúrs. Það verður spennandi að sjá hverju það skilar í stjórnarmyndunarviðræðum næstu dagana.

Mikilvægi þess að snúa baki við olíuvinnslu kemur engum á óvart sem fylgst hefur með umræðunni undanfarin ár. Það breytir hins vegar miklu í hvert sinn sem nýtt ríki tekur þá stefnu upp. Þess vegna hafa Píratar þá skýru stefnu að vilja banna olíuleit, sem er einn af hornsteinum umhverfis- og loftlagsstefnu okkar – þeirrar metnaðarfyllstu sem íslenskir flokkar bjóða upp á samkvæmt Sólinni sem Ungir umhverfissinnar standa að.

Píratar vilja ekki láta þar við sitja. Loftslagsmálin eru þess eðlis að sífellt þarf að auka metnað og grípa til róttækari aðgerða. Við viljum banna olíuleit og í framhaldinu vinna í átt að alþjóðlegu banni við olíuleit og -vinnslu. Við viljum að Ísland mæti metnaðarfullt á fund loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna í nóvember og skipi sér þar í hóp með framsýnum þjóðum, verði með í að stofna bandalag ríkja sem vilja stöðva olíu- og gasvinnslu. Þannig gerum við ekki bara gagn heima fyrir, heldur hjálpum öðrum ríkjum og þar með heiminum öllum að þokast í rétta átt.

Greinin birtist upphaflega á Kjarnanum, 15. september 2021.