Við Íslendingar eigum að vera metnaðarfull þegar kemur að mannréttindum. Virðing fyrir mannréttindum, sjálfræði einstaklingsins og fjölbreytileika mannflórunnar er til marks um góða samfélagslega heilsu – og að mörgu leyti getum við verið hreykin af árangrinum sem náðst hefur í gegnum árin hér á landi.
Á síðustu áratugum höfum við stigið stór skref fram á við þökk sé ötulli og ótrauðri réttindabaráttu jaðarsettra samfélagshópa – og blessunarlega hafa yfirvöld að miklu leyti virt og viðurkennt þessa baráttu. Til að mynda voru lög um staðfesta samvist samþykkt árið 1996 og hjúskaparlög voru endurbætt árið 2010. Í báðum tilfellum var um að ræða mikla bragarbót á lagalegum réttindum hinsegin fólks, og það er mikið fagnaðarefni.
Mikið framfarastökk í þágu mannréttinda átti sér svo stað þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt árið 2019, og það í svo gott sem fullri sátt innan Alþingis. Lögin eru einstaklega mikilvæg vegna þess að þau viðurkenna loks réttindi trans fólks. Trans fólk er viðkvæmur þjóðfélagshópur sem hefur verið jaðarsettur og hlunnfarinn allt of lengi, og það var löngu tímabært að samfélagið mætti þörfum þeirra.
Baráttunni fyrir mannréttindum trans fólks er þó auðvitað síður en svo lokið. Enn eru í gildi úreltar skrifræðisreglur sem gera hversdagslíf þess óþarflega flókið og hættulegt. Til að mynda banna reglugerðir stofnunum og fyrirtækjum ennþá að gera salernisaðstöðu kynhlutlausa – og enn eru í gildi reglur um mannanöfn, vegabréf og fleira sem eru þrándur í götu trans fólks.
Þessu þarf að breyta, og almennt er góður vilji fyrir því í samfélaginu. Slíkar breytingar snúast jú yfirleitt um einskær formlegheit sem eru íþyngjandi fyrir trans fólk en snerta þorra manna lítið sem ekkert – þær snúast einfaldlega um að viðurkenna tilvist trans fólks. Með slíkum umbótum getum við auðveldað trans fólki að lifa frjálsu og gleðilegu lífi og hjálpað því að blómstra í samfélaginu, öllum til hagsbóta og hamingju.
Auðvitað gagnast umbætur á úreltum skrifræðisreglum svo ekki bara trans fólki – árið 2021 gátu t.d. 165 manns breytt kynskráningu sinni án þess að greiða sérstaklega fyrir það í kjölfar þess að Alþingi afnam svokallaðan transskatt – en á sama tíma gagnaðist afnám gjaldtöku þeim tæplega þúsund einstaklingum sem breyttu nafni sínu í þjóðskrá. Þetta segir sig nefnilega sjálft.
Önnur ískyggilegri vandamál steðja þó að velferð trans fólks en úrelt formlegheit. Aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk beið hnekki meðan á faraldrinum stóð og skjótra umbóta er þörf. Biðtímar virðast endalausir, sem hefur alvarleg áhrif á geðheilsu þeirra sem bíða þess að komast í aðgerðir. Heilbrigðiskerfið má ekki sniðganga fólk sem þarf á hjálp að halda, sama hvers kyns hjálpar er þörf – og sama hvers kyns manneskjan kann að vera.
Sömuleiðis ber enn á fordómafullum og meinfýsnum viðhorfum til trans fólks, sem ekkert hefur unnið sér til sakar annað en að vilja vera það sjálft. Fordómar og andúð jaðarsetja og einangra trans fólk, sem hefur einnig neikvæð áhrif á geðheilsu og sjálfsálit þess. Í stað þess að dæma og gagnrýna trans fólk ættum við að leggja okkur fram við að viðurkenna reynsluheim þeirra, hlusta á raddir þeirra og taka þeim eins og þau eru með kærleik og opnum örmum.
Þetta er sérstaklega brýnt í ljósi þeirrar staðreyndar að trans fólk er að miklum hluta til sömuleiðis ungt fólk. Unga fólkið okkar er enn að fóta sig og finna sjálfstraust og pláss í samfélaginu – en á sama tíma er það fólkið sem á eftir að taka við keflinu og halda framtíðinni sem við látum þeim í té gangandi. Þess vegna veltur sjálf framtíðin á því að þjóðin taki trans fólki opnum örmum í stað þess að sýna því dómhörku og tortryggni. Sýnum á ótvíræðan hátt að samfélagið samþykki trans fólk eins og þau eru – að samfélagið sé til staðar fyrir þau, og með þeim, til framtíðar.
Í dag er alþjóðlegur sýnileikadagur trans fólks, sem þjónar okkur vel sem áminning um að sýna trans fólkinu í lífi okkar ást og kærleik, veita því plássið sem það á skilið, ljá því skilningsríkt eyra og halda baráttunni fyrir sjálfsögðum réttindum þeirra og friðhelgi ótrauð áfram – í dag sem alla aðra daga.
Til hamingju með daginn, kæra trans fólk!
Greinin birtist í Morgunblaðinu í tilefni sýnileikadags trans fólks, 31. mars 2022.