Skip to content

Við sjáum ykkur

Við Íslend­ing­ar eig­um að vera metnaðarfull þegar kem­ur að mann­rétt­ind­um. Virðing fyr­ir mann­rétt­ind­um, sjálfræði ein­stak­lings­ins og fjöl­breyti­leika mann­flór­unn­ar er til marks um góða sam­fé­lags­lega heilsu – og að mörgu leyti get­um við verið hreyk­in af ár­angr­in­um sem náðst hef­ur í gegn­um árin hér á landi.

Á síðustu ára­tug­um höf­um við stigið stór skref fram á við þökk sé öt­ulli og ótrauðri rétt­inda­bar­áttu jaðar­settra sam­fé­lags­hópa – og bless­un­ar­lega hafa yf­ir­völd að miklu leyti virt og viður­kennt þessa bar­áttu. Til að mynda voru lög um staðfesta sam­vist samþykkt árið 1996 og hjú­skap­ar­lög voru end­ur­bætt árið 2010. Í báðum til­fell­um var um að ræða mikla brag­ar­bót á laga­leg­um rétt­ind­um hinseg­in fólks, og það er mikið fagnaðarefni.

Mikið fram­fara­stökk í þágu mann­rétt­inda átti sér svo stað þegar lög um kyn­rænt sjálfræði voru samþykkt árið 2019, og það í svo gott sem fullri sátt inn­an Alþing­is. Lög­in eru ein­stak­lega mik­il­væg vegna þess að þau viður­kenna loks rétt­indi trans fólks. Trans fólk er viðkvæm­ur þjóðfé­lags­hóp­ur sem hef­ur verið jaðar­sett­ur og hlunn­far­inn allt of lengi, og það var löngu tíma­bært að sam­fé­lagið mætti þörf­um þeirra.

Bar­átt­unni fyr­ir mann­rétt­ind­um trans fólks er þó auðvitað síður en svo lokið. Enn eru í gildi úr­elt­ar skri­fræðis­regl­ur sem gera hvers­dags­líf þess óþarf­lega flókið og hættu­legt. Til að mynda banna reglu­gerðir stofn­un­um og fyr­ir­tækj­um ennþá að gera sal­ern­isaðstöðu kyn­hlut­lausa – og enn eru í gildi regl­ur um manna­nöfn, vega­bréf og fleira sem eru þránd­ur í götu trans fólks.

Þessu þarf að breyta, og al­mennt er góður vilji fyr­ir því í sam­fé­lag­inu. Slík­ar breyt­ing­ar snú­ast jú yf­ir­leitt um ein­skær form­leg­heit sem eru íþyngj­andi fyr­ir trans fólk en snerta þorra manna lítið sem ekk­ert – þær snú­ast ein­fald­lega um að viður­kenna til­vist trans fólks. Með slík­um um­bót­um get­um við auðveldað trans fólki að lifa frjálsu og gleðilegu lífi og hjálpað því að blómstra í sam­fé­lag­inu, öll­um til hags­bóta og ham­ingju.

Auðvitað gagn­ast um­bæt­ur á úr­elt­um skri­fræðis­regl­um svo ekki bara trans fólki – árið 2021 gátu t.d. 165 manns breytt kyn­skrán­ingu sinni án þess að greiða sér­stak­lega fyr­ir það í kjöl­far þess að Alþingi af­nam svo­kallaðan trans­skatt – en á sama tíma gagnaðist af­nám gjald­töku þeim tæp­lega þúsund ein­stak­ling­um sem breyttu nafni sínu í þjóðskrá. Þetta seg­ir sig nefni­lega sjálft.

Önnur ískyggi­legri vanda­mál steðja þó að vel­ferð trans fólks en úr­elt form­leg­heit. Aðgengi að nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu fyr­ir trans fólk beið hnekki meðan á far­aldr­in­um stóð og skjótra um­bóta er þörf. Biðtím­ar virðast enda­laus­ir, sem hef­ur al­var­leg áhrif á geðheilsu þeirra sem bíða þess að kom­ast í aðgerðir. Heil­brigðis­kerfið má ekki sniðganga fólk sem þarf á hjálp að halda, sama hvers kyns hjálp­ar er þörf – og sama hvers kyns mann­eskj­an kann að vera.

Sömu­leiðis ber enn á for­dóma­full­um og mein­fýsn­um viðhorf­um til trans fólks, sem ekk­ert hef­ur unnið sér til sak­ar annað en að vilja vera það sjálft. For­dóm­ar og andúð jaðar­setja og ein­angra trans fólk, sem hef­ur einnig nei­kvæð áhrif á geðheilsu og sjálfs­álit þess. Í stað þess að dæma og gagn­rýna trans fólk ætt­um við að leggja okk­ur fram við að viður­kenna reynslu­heim þeirra, hlusta á radd­ir þeirra og taka þeim eins og þau eru með kær­leik og opn­um örm­um.

Þetta er sér­stak­lega brýnt í ljósi þeirr­ar staðreynd­ar að trans fólk er að mikl­um hluta til sömu­leiðis ungt fólk. Unga fólkið okk­ar er enn að fóta sig og finna sjálfs­traust og pláss í sam­fé­lag­inu – en á sama tíma er það fólkið sem á eft­ir að taka við kefl­inu og halda framtíðinni sem við lát­um þeim í té gang­andi. Þess vegna velt­ur sjálf framtíðin á því að þjóðin taki trans fólki opn­um örm­um í stað þess að sýna því dóm­hörku og tor­tryggni. Sýn­um á ótví­ræðan hátt að sam­fé­lagið samþykki trans fólk eins og þau eru – að sam­fé­lagið sé til staðar fyr­ir þau, og með þeim, til framtíðar.

Í dag er alþjóðleg­ur sýni­leika­dag­ur trans fólks, sem þjón­ar okk­ur vel sem áminn­ing um að sýna trans fólk­inu í lífi okk­ar ást og kær­leik, veita því plássið sem það á skilið, ljá því skiln­ings­ríkt eyra og halda bar­átt­unni fyr­ir sjálf­sögðum rétt­ind­um þeirra og friðhelgi ótrauð áfram – í dag sem alla aðra daga.

Til ham­ingju með dag­inn, kæra trans fólk!


Greinin birtist í Morgunblaðinu í til­efni sýni­leika­dags trans fólks, 31. mars 2022.