Undanfarin ár hefur verið gaman að fylgjast með réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Hvert skrefið á fætur öðru hefur verið tekið í átt til aukinna mannréttinda, viðurkenningar á stöðu fólks og mikilvægis þess að það njóti virðingar í samfélaginu. Samt er ljóst að margt er hægt að bæta og að aukin réttindi, lífsgæði og öryggi hinsegin fólks er síður en svo veruleikinn í öllum löndum.
Víða getur jafnvel verið lífshættulegt fyrir fólk að opinbera hinseginleika sinn og í dag, á alþjóðlegum minningardegi trans fólks, minnumst við trans fólks sem hefur verið myrt eða svipt sig lífi – einstaklinga sem eru ekki lengur með okkur vegna haturs annarra á kynvitund þeirra. Jafnframt eru ótal önnur sem verða fyrir ofbeldi af sömu sökum en blessunarlega komast lífs af. Framfaraskrefin eru því hvergi nærri búin.
Að stjórnmálafólk eigi í virkum samræðum og hlusti á þau sem ákvarðanir þeirra hafa áhrif á er nauðsynlegt. Þetta skiptir líka máli í tengslum við jákvæðu skrefin, því framförum geta fylgt óvænt neikvæð áhrif. Þannig var stórt og sérstaklega framsýnt skref stigið árið 2019, þegar Alþingi samþykkti lög um kynrænt sjálfræði sem tryggja fólki rétt til að skilgreina kyn sitt sjálft. Vegna þess hversu útbreiddir fordómar eru í heiminum leiðir þetta hins vegar til þess að kynsegin fólk er í dag sett í þá stöðu að þurfa að velja á milli kynskráningar sem samræmist kynvitund þess eða að viðhalda fullu ferðafrelsi.
Með réttri kynskráningu fær fólk í hendurnar vegabréf þar sem sú kynskráning er tekin skýrt fram, sem víða um heim getur beinlínis verið hættulegt. Að geta ferðast um heiminn án þess að þurfa að opinbera hinseginleika þinn fyrir starfsfólki flugvalla, hótela og öðrum þeim sem gætu skoðað vegabréfið þitt er mikið öryggisatriði í heimi þar sem fordómar og ofbeldi gegn hinsegin fólki eru allt of algeng.
Þetta atriði er meðal þess sem lagt er til að breyta með frumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi. Þar er safnað saman nokkrum vanköntum sem hafa komið í ljós á lögum um kynrænt sjálfræði og er ætlað að bæta stöðu og auka öryggi kynsegin fólks. Það er sprottið upp úr samtölum við fólk sem stólar á lögin og fjölskyldur þess og eitt atriðið sem lagt er til í frumvarpinu er að íslensk kvár og stálp geti haft ferðaskilríki sem tilgreina ekki að þau séu með hlutlausa kynskráningu.
Breytingar sem þessar geta virst litlar og einungis tæknilegar, en raunin er sú að þær munu hafa veruleg áhrif og auka öryggi og lífsgæði þeirra sem þau snerta. Ísland hefur náð langt á undanförnum árum í réttindabaráttu hinsegin fólks en við megum ekki láta þar við sitja. Á sama tíma og við minnumst þess trans fólks sem hefur mætt ofbeldi skulum við einsetja okkur að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að fleiri verði fyrir því.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 20. nóvember 2023.