Áskoranirnar sem næsta ríkisstjórn þarf að tækla af krafti eftir kosningar eru skýrar: Heilbrigðismál, efnahagsmál, húsnæðismál, menntamál og samgöngumál. Grunninnviðir og kerfi sem eiga að grípa okkur öll, en hafa verið vanrækt á undanförnum árum, þarf að laga með hraði. Þegar skammtímaáskoranirnar eru svona stórar og brýnar, þá skiptir samt máli að missa ekki fókus á langtímaáskorunum. Baráttan gegn loftslagsvánni og hruni vistkerfa þarf að halda áfram.
Kyrrstaða síðustu ár
Við byggjum upp og breytum samfélagi á hverjum einasta degi. Þessu má ekki gleyma þegar við stöndum frammi fyrir stærstu áskorunum stjórnmálanna hverju sinni. Flest áhlaupsverkefni eru þannig bara hluti af reglubundinni endurstilling á grunnkerfum samfélagsins. Þetta á sérstaklega við um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Þær eru þeim eiginleika gæddar að þegar vel tekst til gera þær samfélagið betra að ótal öðru leyti, strax og til frambúðar.
Undanfarin sjö ár hefur setið að völdum ríkisstjórn sem hefur náð að gera ágreining við sjálfa sig um flest framfaramál. Sá innbyrðis ágreiningur stjórnarflokkanna hefur skekkt alla stjórnmálaumræðu, þannig að stundum virðist eins og mál séu flóknari en þau eru í raun og veru.
Fólk kallar á aðgerðir
Íslendingar eru almennt bjartsýnir á að aðgerðir í loftslagsmálum muni skila góðu, enda áttar fólk sig á því að græn umskipti snúast um að skapa komandi kynslóðum betra líf. Ríkisstjórnin hefur hins vegar skapað allt of fá tækifæri fyrir almenning að leggjast á árarnar í loftslagsmálum. Þegar það gerist stendur ekki á þátttöku – sjáum til dæmis hvernig urðun lífræns úrgangs hætti nánast samstundis þegar fólki bauðst loksins að flokka lífrænt.
Píratar vilja blása til sóknar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Til þess leggjum við til skýr og metnaðarfull markmið, sem byggja á því sem vísindin segja að sé nauðsynlegt. Við viljum virkja almenning í landinu, fá hugmyndir úr öllum geirum samfélagsins til að aðgerðir séu markvissar og sem fjölbreyttastar. Byrjum þess vegna næsta kjörtímabil á borgarafundi um loftslagsmál til að stilla saman strengi. Við munum fjármagna aðgerðir þannig að þær skili árangri.
Formúlan að árangri þarf ekkert að vera mikið flóknari, en reyndist fráfarandi ríkisstjórn ofviða. Þess vegna þarf að kjósa öðruvísi forystu fyrir næsta kjörtímabil.
Greinin birtist í hverfisblaðinu Laugardalur, Háaleiti & Bústaðir, 14. nóvember 2024.