Fræðimenn í alþjóðastjórnmálum hafa undanfarin ár átt erfitt með að hrista af sér djúpstæða gagnrýni á verk sín. Hvernig stóð á því, spyrja gagnrýnendur, að öllum heimsins fræðingum mistókst að sjá fyrir hrun kommúnismans?
Svipuð gagnrýni hefur svosem heyrst upp á síðkastið tengslum við hrun íslenska bankakerfisins og sofandihátt íslenska fræðasamfélagsins.
Nú bregður svo við að tíðindi berast sem gefa framtíðarþenkjandi fræðingum byr undir báða vængi. McDonald’s er að loka á Íslandi. Horfum stundarkorn framhjá þeirri skemmtilegu íróníu að þetta er veitingastaðurinn sem tróð fyrsta hamborgaranum upp á Davíð Oddsson meðan hann var forsætisráðherra. Nóg er annars að skoða.
Hvert er spágildi þess að McDonald’s er að hverfa af landi brott? Jú, einhver er búinn að átta sig á því, að öðruvísi verður ekki hægt að magna Icesavedeiluna meira en þegar er orðið. Einhver er að búa sig undir að fara í stríð gegn Bretum og Hollendingum.
Þessi tilgáta byggir á kenningu eftir blaðamanninn Thomas Friedman, sem tók eftir því að aldrei hefði brotist út stríð á milli tveggja ríkja sem bæði hefðu McDonald’s veitingastaði. Frá því að Friedman setti fram kenningu sína um hamborgarafriðinn hefur sýnt sig að hún er tölfræðilega séð ein sú traustasta í alþjóðasamskiptum — raunar eru átök Rússlands og Georgíu á síðasta ári fyrsta og eina dæmið sem ekki passar í hamborgarakenninguna.
Þá stendur eftir stóra spurningin: Hvaða stríðsæsingarhópur stendur að baki brottvikningar McDonald’s frá Íslandi?
Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.