Skip to content

Samviskufrelsið prestanna

Fyrsta fyrirspurn Andrésar Inga var til utanríkisráðherra

Af þeim þremur fyrirspurnum sem ég lagði fram vakti ein langmesta athygli. Sú snérist um svokallað „samviskufrelsi“ presta þjóðkirkjunnar, þ.e. hvort þeir hefðu heimild til að mismuna hjónaefnum á grundvelli kynhneigðar. Hugmyndir um þetta hafa skotið reglulega upp kollinum, t.d. stuttu áður en ég lagði fyrirspurnina fram þegar Kirkjuþing unga fólksins hvatti biskup til að nema heimildina úr gildi.

Innanríkisráðuneytið dró lappirnar nógu lengi með að svara fyrirspurninni til þess að hún félli niður við þinglok. Þá greip Steinunn Þóra til sinna ráða, en ég hafði leyst hana af sem varamaður, lagði fyrirspurnina fram í byrjun nýs þings og fékk fljótlega svar frá innanríkisráðherra.

Í framhaldinu varð mikil umræða um „samviskufrelsið“, þar sem nokkrir prestar og fv. biskup vildu standa fast á rétti þjóna kirkjunnar til að synja fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar, en á endanum samþykkti Kirkjuþing ályktun þar sem allar hugmyndir um samviskufrelsi voru slegnar út af borðinu. Til að taka af allan vafa um jafnan rétt fólks til að ganga í hjónaband lagði Steinunn Þóra jafnframt fram þingsályktunartillögu, þar sem lagt er til að vígsluréttindi verði bara í höndum borgaralegra vígslumanna.