Skip to content

Lofts­lags­mál í lausa­gangi hjá um­hverfis­ráð­herra

Forystuleysi ríkisstjórnarinnar er að verða að sjálfstæðu vandamáli í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hjá umhverfisráðherra birtist það gjarnan í því að hann víkur sér undan umræðu um aðgerðir með því að fara með margtuggða rullu um hitaveituvæðinguna. Horfir til fortíðar frekar en framtíðar

Með því að spyrja réttra spurninga er síðan hægt að fá skýrari innsýn í áhuga- og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í dag fékk ég loksins svar frá umhverfisráðherra um stóru línurnar í loftslagsmálum. Sú staðreynd að ráðuneytið tók sér níu mánuði að svara segir sitt, en svörin eru auk þess áhyggjuefni.

Aukinn metnaður í orði, ekki á borði

Í febrúar 2021 uppfærði Ísland markmið sín gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, samstíga Evrópusambandinu og Noregi. Þegar ný ríkisstjórn var síðan mynduð í nóvember 2021 sagðist hún vera að auka metnað í loftslagsmálum frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Allan síðasta vetur hef ég reynt að fá umhverfisráðherra til að svara einfaldri spurningu: Hvernig á þessi aukni metnaður að birtast í formlegum skuldbindingum? „Ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um að uppfæra landsmarkmið Íslands gagnvart loftslagssamningnum,“ segir í svarinu.

Hálft kjörtímabil án skýrrar forystu

Ég spurði líka hvenær ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum muni líta dagsins ljós. Sú sem unnið er eftir í dag er nefnilega frá 2020, áður en formlegu markmiðin gagnvart loftslagssamningnum breyttust, áður en ríkisstjórnin tók við með nýjum stjórnarsáttmála. Þar er álíka lítið að frétta af aðgerðum ráðherrans. „Undirbúningur er hafinn að því að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að hinum hertu markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.“ Atvinnulífinu hefur verið falið að setja sér markmið um ákveðna geira, en algjörlega án þeirrar pólitísku forystu sem nauðsynleg er um heildarsýnina.

Næstum tvö ár eru liðin frá því að nýr ráðherra settist í umhverfisráðuneytið. Metnaðarleysið fyrir loftslagsmálum er himinhrópandi. Það birtist sjaldan skýrar en í því að það sé ekki einu sinni búið að uppfæra þessi grundvallarmarkmið – þennan ramma fyrir aðgerðir samfélagsins gegn loftslagsbreytingum sem þarf pólitíska forystu til að setja.

Greinin birtist upphaflega á Vísi, 8. september 2023.