Skip to content

Ári eftir þingviku

Halldór (4) og Ragna (2) fylgjast með pabba sínum flytja jómfrúarræðu á þingi.
Halldór (4) og Ragna (2) fylgjast með pabba sínum flytja jómfrúarræðu á þingi.

Í dag er eitt ár liðið síðan ég settist inn á þing sem varamaður Steinunnar Þóru Árnadóttur. Ég hafði aðeins úr fimm dögum að spila og reyndi að nýta tímann sem allra best. Á þessu ársafmæli er gaman að renna yfir örbloggið sem ég hélt úti og rifja þingvikuna upp.

Þetta voru nokkuð skrítnir dagar á Alþingi, þar sem þingið átti að vera löngu komið í sumarfrí en ekki náðist að semja um þinglok fyrr en rétt um það leyti sem ég tók sæti. Alla vikuna stóðu fundir langt fram á kvöld og það voru haldnir miklir atkvæðagreiðslufundir. Á þessum tíma náði ég þó að greiða atkvæði rúmlega 300 sinnum!

Vegna þess að ég vissi að það yrði mikil keyrsla á þingstörfunum þessa daga sem ég hefði, þá undirbjó ég mig vel fyrir þingsetuna og gerði m.a. eftirfarandi:

  • Mætti til starfa með þrjár fyrirspurnir tilbúnar, þ.á m. eina um „samviskufrelsi“ presta sem vakti mikla athygli.
  • Jómfrúarræðan endaði með að veraða hluti af „alvöru“ umræðu, þar sem ég tók fimm sinnum til máls, rak ráðherra á gat og pirraði framsóknarþingmenn. Ágætt dagsverk.
  • Náði að veifa forboðnu eintaki af guðlastseintaki Spegilsins í þingsal, rétt áður en við námum úr gildi lögin sem Úlfar Þormóðsson var dæmdur eftir.
  • Studdi fjölda góðra mála með 226 já-atkvæðum og stóð gegn ýmsum verri málum með 25 nei-atkvæðum og 58 hjásetum.
  • (Ég var auk þess fjarverandi við 9 atkvæðagreiðslur. Fimm vegna þess að ég tafðist úti í bæ, en fjórar vegna þess að ég náði ekki að fylgjast nógu vel með þar sem ég sat við atkvæðatakkana. Tempóið þarna er ekkert grín!)
  • Vakti athygli á öllum sterku femínistunum sem voru að bylta samfélaginu með #freethenipple og öðrum samfélagsmiðlabyltingum.

Það var ótrúlega skemmtileg reynsla að sitja þessa fimm daga inni á þingi, en væri auðvitað enn skemmtilegra að fá tækifæri til að verja þar lengri tíma. Ég er viss um að ég gæti orðið að gagni. Þess vegna fagnaði ég þessu eina ári sem liðið er frá því ég settist á þing með því að senda uppstillingarnefnd Vinstri grænna í Reykjavík línu rétt í þessu, þar sem ég gaf kost á mér í 2. sæti lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir kosningar nú í haust.

Tags: