Skip to content

Gleðibankahrunið

Gjarnan er sagt að nokkrir tugir viðskipta- og stjórnmálamanna beri ábyrgð á efnahagshruninu síðasta haust. Með því að líta ríflega tvo áratugi aftur í tímann má hins vegar sjá að hinir raunverulegu höfuðpaurar hrunsins voru Eiríkur Hauksson, Helga Möller og Pálmi Gunnarsson. Þau þrjú, sem kenndu sig við ICY Group, skákuðu í skjóli Magnúsar Eiríkssonar, Gleðibankastjóra.

Útrásin sem mistókst

Um miðjan níunda áratuginn voru Íslendingar í bullandi útrás. Jón Páll Sigmarsson reyndist manna sterkastur árið 1984 og Hólmfríður Karlsdóttir kvenna fegurst ári síðar. Þessi árangursríki útflutningur þjóðargersema fyllti aðstandendur Gleðibankans von um að vel myndi ganga í Eurovision söngvakeppninni árið 1986.

Sú varð nú ekki raunin. Evrópa var ekki tilbúin fyrir Ísland, sagði einn útrásarvíkingurinn í blaðaviðtali. Útrásarsöngurinn átti ekki upp á pallborðið ytra.

Í aðdraganda söngvakeppninnar velktist varla nokkur maður í vafa um að Evrópumarkaður væri tilbúinn fyrir nýjan, íslenskan banka. Sumir höfðu þó áhyggjur af því að Íslandi gæti reynst erfitt að axla þá ábyrgð sem fylgdi sigri í keppninni. Þær áhyggjur urðu þó ekki til að hægja á útrásinni, frekar en ábyrgð þjóðarinnar á innistæðum á Icesave-reikningum hægði á nokkrum sköpuðum hlut.

Þjóð í hlekkjum myndlíkingar

Íslenska þjóðernisútrásin virðist hafa náð heilmiklum samhljómi með hjörtum landsmanna. Í það minnsta urðu það algild sannindi að hérlendir karlmenn væru sterkir og konur fagrar. Árangur þjóðarinnar í alþjóðlegum söngvakeppnum var ekki jafnmikið ræddur, en skyldi ekki eitthvað hafa eimt eftir af Gleðibankaáhrifunum? Gæti verið að þjóðin – sem gat ekki fengið nóg af Jóni Páli og Hófí – hafi lagt sig eftir boðskap textans í Gleðibankanum?

Trúðum við þessu virkilega?

Atburðir síðustu mánuða benda til þess að útrás níunda áratugarins hafi ekki einasta fengið landsmenn til að trúa því að karlarnir okkar væru sterkastir og konurnar sætastar, heldur hafi söguheimur Gleðibankans náð að hreiðra um sig í þjóðarsálinni.

Hérna liggja ef til vill rætur efnahagshrunsins, því ábyrgur rekstur raunverulegs banka getur tæpast tekið mið af viðskiptamódeli Gleðibankans. Mennirnir sem sagt er að sett hafi landið á hausinn voru hins vegar ungir og áhrifagjarnir árið 1986, þannig að þeir vissu ekki betur. Þeir skildu textann þannig að lífsgleðin sjálf felist í rekstri banka.

Í Gleðibankanum eru spunnir saman tveir þræðir. Annars vegar er sungið um nægjusemi og notalegheit. Lagið er lítið og kósí, sem og gleðihúsið sem viðkomandi býr í. Hinn þráðurinn er öllu dekkri, en þar prédikar ICY-flokkurinn fjárhagslega óráðsíu. „Leggur ekkert inn, tekur bara út,“ er boðskapurinn sem tryggði sérstökum vinum bankanna vildarkjör síðustu árin. „Syndir þínar sem þú aldrei drýgðir,“ er viðmót þeirra sem settu bankana á hausinn – þeir þykjast vera saklausir.

Öllum öðrum kennt um

Í kjölfar Gleðibankahrunsins greip um sig mikil reiði, líkt og gerðist þegar raunverulegu bankarnir hrundu á haustdögunum. Aðstandendur lagsins báru fyrir sig, að þeim hefði ekki gengið sem skyldi að hafa áhrif á erlendu dómnefndirnar. Gordon Brown var álíka stirðbusalegur í haust.

Þá var jafnvel gripið til þess að vera með skítkast út í þrettán ára stelpu, sem þótti hafa átt nokkurn hlut í hruninu. Það er þó spurning hvort hlutur Söndru Kim í hruni Gleðibankans hafi verið stærri en hlutur Lehman Brothers í nýja hruninu.

Um vorið fyrir 23 árum mátu sumir ósigur Gleðibankans sem nokkurs konar áfangasigur. Ein öflugasta Pollýanna útrásarinnar var leiðarahöfundur Morgunblaðsins:

Í þessu efni verða þjóðir að sýna þolinmæði og þrautseigju og bíða þess með bros á vör, að þær detti í lukkupottinn. […] Fyrir tilstilli Gleðibankans höfum við komið því á framfæri við stærri hóp fólks, að við erum hluti Evrópu, en með nokkru öðru tiltæku ráði. Það eitt er góður árangur.

Magnús Eiríksson, höfundur Gleðibankans, má líka eiga það að hann tók hruninu betur en flestir útrásarvíkingar samtímans. Kvöldið sem ósigurinn varð ljós lét hann blaðamann DV hafa eftirfarandi eftir sér: „Við verðum að gera okkur grein fyrir að það er ekki hægt að gleypa heiminn svona í fyrstu atrennu.“

Ætli við verðum ekki að gera okkur grein fyrir því aftur?

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.