Ári eftir þingviku

Halldór (4) og Ragna (2) fylgjast með pabba sínum flytja jómfrúarræðu á þingi.
Halldór (4) og Ragna (2) fylgjast með pabba sínum flytja jómfrúarræðu á þingi.

Í dag er eitt ár liðið síðan ég settist inn á þing sem varamaður Steinunnar Þóru Árnadóttur. Ég hafði aðeins úr fimm dögum að spila og reyndi að nýta tímann sem allra best. Á þessu ársafmæli er gaman að renna yfir örbloggið sem ég hélt úti og rifja þingvikuna upp.

Þetta voru nokkuð skrítnir dagar á Alþingi, þar sem þingið átti að vera löngu komið í sumarfrí en ekki náðist að semja um þinglok fyrr en rétt um það leyti sem ég tók sæti. Alla vikuna stóðu fundir langt fram á kvöld og það voru haldnir miklir atkvæðagreiðslufundir. Á þessum tíma náði ég þó að greiða atkvæði rúmlega 300 sinnum!

Vegna þess að ég vissi að það yrði mikil keyrsla á þingstörfunum þessa daga sem ég hefði, þá undirbjó ég mig vel fyrir þingsetuna og gerði m.a. eftirfarandi:

  • Mætti til starfa með þrjár fyrirspurnir tilbúnar, þ.á m. eina um „samviskufrelsi“ presta sem vakti mikla athygli.
  • Jómfrúarræðan endaði með að veraða hluti af „alvöru“ umræðu, þar sem ég tók fimm sinnum til máls, rak ráðherra á gat og pirraði framsóknarþingmenn. Ágætt dagsverk.
  • Náði að veifa forboðnu eintaki af guðlastseintaki Spegilsins í þingsal, rétt áður en við námum úr gildi lögin sem Úlfar Þormóðsson var dæmdur eftir.
  • Studdi fjölda góðra mála með 226 já-atkvæðum og stóð gegn ýmsum verri málum með 25 nei-atkvæðum og 58 hjásetum.
  • (Ég var auk þess fjarverandi við 9 atkvæðagreiðslur. Fimm vegna þess að ég tafðist úti í bæ, en fjórar vegna þess að ég náði ekki að fylgjast nógu vel með þar sem ég sat við atkvæðatakkana. Tempóið þarna er ekkert grín!)
  • Vakti athygli á öllum sterku femínistunum sem voru að bylta samfélaginu með #freethenipple og öðrum samfélagsmiðlabyltingum.

Það var ótrúlega skemmtileg reynsla að sitja þessa fimm daga inni á þingi, en væri auðvitað enn skemmtilegra að fá tækifæri til að verja þar lengri tíma. Ég er viss um að ég gæti orðið að gagni. Þess vegna fagnaði ég þessu eina ári sem liðið er frá því ég settist á þing með því að senda uppstillingarnefnd Vinstri grænna í Reykjavík línu rétt í þessu, þar sem ég gaf kost á mér í 2. sæti lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir kosningar nú í haust.

Samviskufrelsið prestanna

Fyrsta fyrirspurn Andrésar Inga var til utanríkisráðherra

Af þeim þremur fyrirspurnum sem ég lagði fram vakti ein langmesta athygli. Sú snérist um svokallað „samviskufrelsi“ presta þjóðkirkjunnar, þ.e. hvort þeir hefðu heimild til að mismuna hjónaefnum á grundvelli kynhneigðar. Hugmyndir um þetta hafa skotið reglulega upp kollinum, t.d. stuttu áður en ég lagði fyrirspurnina fram þegar Kirkjuþing unga fólksins hvatti biskup til að nema heimildina úr gildi.

Innanríkisráðuneytið dró lappirnar nógu lengi með að svara fyrirspurninni til þess að hún félli niður við þinglok. Þá greip Steinunn Þóra til sinna ráða, en ég hafði leyst hana af sem varamaður, lagði fyrirspurnina fram í byrjun nýs þings og fékk fljótlega svar frá innanríkisráðherra.

Í framhaldinu varð mikil umræða um „samviskufrelsið“, þar sem nokkrir prestar og fv. biskup vildu standa fast á rétti þjóna kirkjunnar til að synja fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar, en á endanum samþykkti Kirkjuþing ályktun þar sem allar hugmyndir um samviskufrelsi voru slegnar út af borðinu. Til að taka af allan vafa um jafnan rétt fólks til að ganga í hjónaband lagði Steinunn Þóra jafnframt fram þingsályktunartillögu, þar sem lagt er til að vígsluréttindi verði bara í höndum borgaralegra vígslumanna.

Þriggja fyrirspurna þingseta

Fyrsta fyrirspurn Andrésar Inga var til utanríkisráðherra
Fyrsta fyrirspurn Andrésar Inga var til utanríkisráðherra

Það er ekki alltaf mörgu hægt að koma í verk þegar varamaður sest inn á þing, sérstaklega ef hann situr bara í fimm daga stuttu fyrir þinglok. Ég vissi þetta og hafði þess vegna undirbúið þrjár fyrirspurnir sem ég lagði fyrir jafnmarga ráðherra ríkisstjórarinnar. Þær voru um:

Þótt þingsköp Alþingis séu mjög skýr um tímafresti sem ráðuneyti hafa til að svara fyrirspurnum, þá létu tvö ráðuneytin svörin dragast svo lengi að þau skiluðu sér ekki áður en þingi var slitið fyrir haustið. Eina svarið sem ég fékk í hendurnar var frá utanríkisráðherra um Evrópustefnu stjórnarinnar. Eins írónískt og það kann að virðast kom fram í svarinu að ríkisstjórnin var komin langt yfir alla tímafresti sem hún setti sjálfri sér þegar hún samþykkti Evrópustefnuna.

Hinar tvær fyrirspurnirnar féllu þá niður dauðar, en ég var svo heppinn að Steinunn Þóra bauðst til að leggja þær aftur fram á nýju þingi og fékk þá loksins svör í hendur. Þar vakti svar innanríkisráðherra um svokallað samviskufrelsi presta mikla athygli og kom af stað sterkri umræðu í samfélaginu.

Ég segi nei!

Ég hefði ekki stutt upphaflegt frumvarp um uppbyggingu á Bakka og ég mun ekki styðja það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég segi nei.

Andrés Ingi, 3. júlí 2015

Eitt síðasta málið sem þingið afgreiddi meðan ég sat þar sem varamaður var tillaga um fjárheimild til uppbyggingar vegna stóriðju á Bakka. Innan Vinstri grænna hafa frá upphafi verið mjög skiptar skoðanir um framkvæmdirnar.

Frekar en að ríkið leggi fjölda milljarða í mengandi og orkufrekan iðnað tel ég að nýta opinbert fjármagn til að styrkja fjölbreyttara og öflugara atvinnulíf. Upphaflega var gert ráð fyrir að verja 1800 milljónum í vegaframkvæmdir vegna Bakka, en málið sem hér var til umræðu snérist um að fella það hámark á upphæðina úr lögum. Eins og ég lýsti í atkvæðaskýringu gat ég ekki stutt málið, ekki frekar en ég hefði getað stutt upphaflega tillögu um aðkomu ríkisins að uppbyggingu á Bakka.

Það spillti svo ekki fyrir að geta farið með línuna „ég segi nei“ í máli þar sem Ögmundur Jónasson sagði líka nei.

Eldhúsdagur 2015

Það hittist svo vel á meðan ég sat inni á þingi sem varamaður, að ég fékk að taka þátt í eldhúsdagsumræðum. Ég nýtti tækifærið til að vekja athygli á öllum kvenfrelsisbyltingunum sem höfðu átt sér stað á undanförnum vikum og mánuðum. Bylgja sem byrjaði með #freethenipple og hafði náð að rjúfa þögnina sem ríkir um þolendur kynferðisofbeldis dagana áður en ég settist á þing.

Þegar þessi ræða var haldin var það í fyrsta sinn sem einhver hafði minnst á samfélagsmiðlabyltingarnar í þingsal, mörgum mánuðum eftir að þær byrjuðu.

[x_video_embed]

[/x_video_embed]

Rekinn úr pontu!

Í umræðum um verndarsvæði í byggð lá mér svo margt á brjósti að ég braut eina af grundvallarreglum dansins í þingsal. Ég steig upp í pontu áður en forseti hafði klárað að kynna mig. Þetta stoppaði Óttarr Proppé náttúrulega af festu og öryggi, þannig að ég stökk frá pontunni. Svona getur maður verið kvikur og lipur.

Óttar Proppé biður nýliðann að stíga ekki í pontu fyrr en forseti hefur lokið við að kynna hann.
Óttar Proppé biður nýliðann að stíga ekki í pontu fyrr en forseti hefur lokið við að kynna hann.