Skip to content

Samruni í söngvagæru?

Undanfarin ár hefur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – Eurovision – stækkað hröðum skrefum, og á sama tíma hefur hún dregið æ meiri dám af alþjóðakerfi stjórnmálanna. Háværar raddir eru um blokkamyndun og frændsemi. Almennt skítkast út í aðrar þjóðir er orðið regla frekar en undantekning – sem þessa dagana birtist helst í ásökunum um að austantjaldslöndin séu í klíku.

Þessi þróun er þó ekki algjörlega ný af nálinni. Djúpur pólitískur boðskapur, sem og grunur um að þátttökulönd hafi óhreint mjöl í pokahorninu, hefur verið samofinn keppninni frá ómunatíð.

Áhugi Íslendinga á Eurovision er gífurlegur, en gagnrýnileysið sætir furðu. Hvernig stendur á því að andstæðingar Evrópusambandsaðildar Íslands sitja þegjandi undir samrunaáróðri söngvakeppninnar?

Georgíudeilan

Þetta árið hljóta allir réttþenkjandi Eurovisionaðdáendur að hugsa Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva þegjandi þörfina vegna heigulsháttar. Í ár fór nefnilega eitt ríkið fram á að framlag annars ríkis yrði ritskoðað. Þessu urðu skipuleggjendurnir við, og fóru fram á að Georgía breytti laginu sínu til að minnka fýluna í Rússunum. Georgíumenn stóðu fast á sínu, þannig að úr varð að þeir hættu við keppni.

Enn og aftur sigraði rússneski björninn.

En hvað mislíkaði Rússum svona svakalega? Jú, lag Georgíumanna bar heitið „We Don‘t Wanna Put In,“ og var (augljóslega) beint að Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands.

Þetta er sami Vladimír Pútín og leiddi Rússland í stríð við Georgíu í ágúst á síðasta ári, undir því yfirskini að vilja frelsa Abkasíu og Suður-Ossetíu. Munurinn í stærð og styrk herjanna var gífurlegur. Hundruð manns létust, hundruð þúsunda þurftu að flýja heimili sín, eignatjón var geysilegt og Georgíuher var í rjúkandi rústum eftir átökin.

Í þessu samhengi er ekki skrýtið að gagnrýni á Rússa hafi átt upp á pallborðið hjá tónlistaráhugamönnum í Georgíu.

Og hver voru annars þessi hræðilegu vers sem þurfti að afmá? Í lauslegri þýðingu gæti textinn verið einhvern veginn svona: „Við viljum ekki Pútín, því þessi fýlupúki er að drepa allt fjör. Ég ætla frekar að skjótast á diskó í kvöld og dilla mér við þig.“

Svona lagað má náttúrulega ekki segja í siðmenntaðri söngvakeppni! Að einhver vilji frekar dansa en deyja – fussumsvei!

Guði sé lof að Páll Magnússon, og allir hinir sjónvarpsstjórarnir í Evrópu, settu þessum diskódrósum stólinn fyrir dyrnar.

Lýrískur tvískinnungur

Skipuleggjendur keppninnar báru fyrir sig reglur hennar þegar þeir bönnuðu Georgíumönnum að atast í Rússum. „Óheimilt er að vera með texta, ræður eða látbragð sem er pólitísks eða annars viðlíka eðlis,“ sagði talsmaður keppninnar.

En það er í þessu eins og svo mörgu öðru, að það er ekki sama hvort söngvarinn er Jón eða séra Jón. Tökum Ísrael sem dæmi.

Frá upphafi hefur Ísrael reynt á pólitískt þanþol Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva. Ísrael er auðvitað ekki evrópskt ríki, svo þátttaka þess í keppninni ein og sér er vafasöm – en raunar hefur fjöldi ríkja utan Evrópu þátttökurétt. Sökum sönggleði Ísraela kjósa öll þau arabaríki sem hafa þátttökurétt (og þau eru nokkur) að sniðganga keppnina. Undantekningin er reyndar Marokkó, sem nýtti tækifærið þegar Ísrael heltist úr lestinni 1980.

Það teljast því nokkur tíðindi að framlag Ísraels þetta árið sé sungið á arabísku – auk hebresku og ensku – enda nærri þrír áratugir liðnir síðan arabaríki sendi lag í keppnina.

Árið 2007 var ísraelska lagið á þremur tungumálum, líkt og nú, en pólitíski boðskapurinn var ögn beittari en gengur og gerist. „Push the Button“ hét lag sveitarinnar Teapacks, og braut það blað í sögu keppninnar þar sem það var sungið á hebresku, ensku og frönsku. Þrátt fyrir þetta tímamótaskref, og þrátt fyrir að lagið væri hið fjörugasta, hlaut það ekki náð fyrir augum kjósenda og komst ekki upp úr undakeppninni.

Það verður samt varla annað sagt en að textinn hafi verið býsna pólitískur. Lagið er ádeila á stjórnvöld í Íran, og beinir gagnrýni sinni meðal annars að hægagangi alþjóðasamfélagsins gagnvart áætlunum Írana til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Titill lagsins er augljós vísun í „hnappinn“ sem þjóðarleiðtogar nota til að senda kjarnorkuflaugar af stað, en fleiri gullkorn leynast í textanum.

„Það eru brjálaðir einvaldar, sem liggja í leyni og reyna að blekkja okkur,“ sungu Teapacks um stjórnvöld í Íran. „Sökum djöfullegs og tæknistýrðs vilja síns til að valda skaða ætla þeir að þrýsta á hnappinn.“

Þótti RÚV og félögum þetta ekki vera pólitískur áróður?

Meira að segja flytjendurnir áttuðu sig á því að þeir væru að reyna á mörk þess sem sanngjarnt gæti talist, eins og sést á einni hendingu lagsins: „Kannski er þetta of beitt. Við ættum að syngja lög um pálmatré.“

Ef eitt gengi yfir alla, þá hefðu Teapacks sungið um pálmatré 2007 – ja, eða Georgía fengið að atast aðeins í Rússum 2009.

Það væri ósanngjarnt að tala um pólitískan áróður í söngvakeppninni, án þess að minnast á Dönu International, sem árið 1998 varð fyrsti transgender sigurvegari keppninnar. Hún nýtti tækifærið til góðs, þar sem hún leit ekki einungins á sigurinn sem viðurkenningu sönghæfileika sinna, heldur sem mikilvægt skref í réttindabaráttu transgender fólks. „Sigur minn sýnir og sannar að Guð stendur með mér,“ sagði hún að keppninni lokinni. „Ég er það sem ég er, en það þýðir ekki að ég trúi ekki á Guð, eða sé ekki hluti af þjóð Gyðinga.“

Svona boðskapur leyfist víst varla í Rússlandi, þar sem gleðigöngur samkynhneigðra eru barðar niður af vopnuðum lögregluþjónum.

Bylting og bæling sama ár

Hræðslan við pólitískan áróður í söngvakeppninni á mögulega rætur sínar að rekja til ársins 1974, sem hlýtur að teljast eitt hið viðburðaríkasta í sögu keppninnar. Keppninnar er helst minnst fyrir sigurlagið Waterloo með ABBA, en önnur lög höfðu mikil áhrif, þó á staðbundnari hátt væri.

Portúgal hafði verið undir hæl fasískrar herforingjastjórnar frá árinu 1926. Þeirri stjórn var velt úr sessi í byltingu sem hófst með Eurovision. Leiðtogar uppreisnarinnar höfðu komið sér saman um að hefjast handa þegar keppandi Portúgals stigi á svið í keppnishöllinni. Svo varð, og þremur vikum síðar voru herforingjarnir komnir frá völdum og lýðræði fest í sessi.

Pólitískur áróður þarf nefnilega ekki alltaf að hafa neikvæðar afleiðingar.

Verra var með ítalska ríkissjónvarpið þetta árið. Ástarlagið sem Ítalir sendu í keppnina hét „Si,“ og fjallar um það að söngkonan játast ástmanni sínum. Fyrir vikið kemur orðið „já“ sextán sinnum fyrir í textanum, sem ritskoðunarnefndin á Ítalíu gat ekki sætt sig við – og lagið var því aldrei sýnt í heimalandinu.

Sjónvarpsstöðin greip til þessa ráðs vegna þess að óttast var að lagið gæti heilaþvegið þjóðina. Mánuði eftir Eurovision greiddu Ítalir þjóðaratkvæði um lögleiðingu hjónaskilnaða, og var óttast að já-lagið gæti haft óeðlileg áhrif á kosningarnar.

Ritskoðunin heppnaðist. Skilnaður varð ekki löglegur þetta árið.

En hvað með ESB?

Þessa dagana má náttúrulega ekki nefna nokkurn hlut án þess að hann sé tengdur Evrópusambandinu og samskiptum Íslands við það. Þess vegna skýtur skökku við hversu hljótt er í búðum Evrópuandstæðinga þegar kemur að Eurovision.

Þetta kann að hljóma hjákátlegt, en raunin er sú að margt er líkt með skyldum. Ef sköpunarsaga Eurovision og ESB er borin saman, kemur í ljós að ræturnar eru þær sömu.

Sagan er nokkurn veginn svona: Evrópa var í rústum eftir seinni heimsstyrjöldina. Fólk var almennt sammála um að vilja ekki endurtaka leikinn. Þá datt einhverjum það snjallræði í hug að binda ríki álfunnar þétt saman á sem flestum sviðum, og byggja upp samhug innan hennar.

Það er enda engin tilviljun að fyrsta Eurovisionkeppnin var haldin 1956, og að ári síðar var skrifað undir Rómarsáttmálann, sem lagði grunninn að Evrópubandalaginu – forvera Evrópusambandsins.

Og ættarsvipurinn sést víða.

Sigurvegari Eurovision árið 1956 var Sviss, en grunur leikur á að lýðræðishalli hafi tryggt þann sigur. Það árið komust fulltrúar Lúxemborgar í dómnefnd ekki til keppninnar, en framseldu atkvæðarétt sinn til svissnesku dómnefndarinnar. Það árið hafði hvert þátttökuland tvö atkvæði, og mátti þar að auki greiða sjálfu sér atkvæði. Þarna sátu því Svisslendingar með fullar hendur atkvæða, og gátu tryggt sér sigur, þökk sé samtryggingarkerfi smáríkjanna.

Báðar stofnanirnar, sambandið og söngvakeppnin, höfðu það frá upphafi að markmiði að sameina og styrkja Evrópu. Eurovision hafa Íslendingar gengist vandræðalaust á hönd, en enn er deilt um gagnsemi Evrópusambandsins.

Málum er öðruvísi farið í hinum enda álfunnar, þar sem Tyrkir vita vel hvað klukkan slær. Sú ofuráhersla sem þeir leggja á gott gengi í Eurovision þjónar þeim göfuga tilgangi að auka hróður lands og þjóðar. Jafnframt kemst landið ofar í vitund samrunasinna, og eygir von um að hljóta náð fyrir augum Olla Rehn stækkunarstjóra ESB – að því gefnu að hann horfi á Eurovision.

Væri maður gefinn fyrir samsæriskenningar, þá væri hægt að segja að Tyrkir noti Eurovision sem bakdyr að Evrópusambandinu, en ESB hafi notað keppnina til að heilaþvo æsku Íslands til að verða jákvæðari í garð sambandsins.

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.