Skip to content

Hata karlar konur?

Á tyllidögum er sagt að hvergi sé jafnrétti kynjanna lengra komið en hér á landi. Stundum klórar maður sér í kollinum og spyr hvort það geti virkilega verið. Þrjú nýleg dæmi ættu að vekja flest jafnréttisþenkjandi fólk til verulegrar umhugsunar.

Kennari við framhaldsskóla mælir í bloggfærslu með því að að kynferðisofbeldi sé beitt gegn sakborningum í níumenningamálinu, í gríni að sagt er. Áður hafði hann sýnt brengluð viðhorf til ofbeldis, þegar hann setti athugasemd á Facebook um kvenkyns borgarfulltrúa: „Undir niðri dauðlangar hana í nauðgun, það er nú heila málið.“ Fyrstu viðbrögð skólans eru ekki að taka karlinn á teppið, heldur að snupra manninn sem benti á ummælin í lesendabréfi.

Karlkyns saksóknari talar svo niðrandi um konuna sem tekur við embættinu í fjarveru hans, að hún sér þann kost einan í stöðunni að leggja fram kæru. Í samtali við fjölmiðla telur karlinn málið allt hið fáránlegasta og ómerkilegt hafi verið af konunni að leggja fram kæruna, en hann sé ánægður með að saksóknari hafi látið málið falla niður.

Yfirmaður hjá opinberu hlutafélagi áreitir samstarfskonu sína svo gróflega kynferðislega að fyrirtækið er dæmt til að greiða henni 1,8 milljónir í miskabætur. Innan fyrirtækisins ganga undirskriftalistar, þar sem stuðningi er lýst við brotamanninn – umfjöllun fjölmiðla þyki ómakleg, þrátt fyrir að dómurinn hafi þótt nokkuð afgerandi.
Þykir í lagi að saksóknari geri lítið úr kæru, að því er virðist annað hvort vegna þess að á henni er kynjavinkill, eða vegna þess að hún beinist óþægilega gegn honum sjálfum?

Þykir í lagi að fyrirtæki í opinberri eigu leyfi undirskrifasöfnun gegn fórnarlambi kynferðislegrar áreitni að viðgangast?

Þykir í lagi að starfsmaður skóla breiði út kvenfjandsamlegan hatursboðskap?

Er það nema von að maður spyrji í anda spennusagnanna: Hata karlar konur?

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.