Skip to content

Börn á flótta: Flestum synjað og fæst hlustað á

Þó að heimurinn standi reglulega frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum, þá eru oftar en ekki fordæmi fyrir þeim aðgerðum sem gripið er til. Þannig er mjög kunnuglegt stef hjá mörgum ríkjum í viðbrögðum þeirra við Covid-19. Raunhæfustu lausnirnar byggja á samstöðu og samvinnu, en síðustu daga hafa ríki hvert á fætur öðru gripið til þess að loka landamærum sínum og draga sig inn í skelina – eins og samábyrgðin gagnvart veirunni nái ekki lengra en að endimörkum hvers ríkis eða ríkjabandalags fyrir sig.

Sambærileg viðbrögð sáum við hjá ríkjum Evrópu fyrir fimm árum, þegar stríðið í Sýrlandi hafði hrakið milljónir á flótta. Fólki á flótta hafði fjölgað á árunum áður, en vöxturinn var svo hraður 2015 að skyndilega var öllum ráðum beitt til að halda því utan Evrópu. Og þar var Ísland engin undantekning.

Nýlega fékk ég tölur frá dómsmálaráðherra varðandi börn og umsóknir um alþjóðlega vernd. Þar kemur í ljós að meirihluta umsókna þeirra er synjað og að þrátt fyrir kröfur barnasáttmálans fái fæst þeirra að tjá skoðun sína vegna umsóknarinnar.

Skorast undan sameiginlegri ábyrgð

Ísland skar sig reyndar úr að einu leyti þegar straumur flóttamanna óx sem hraðast. Á sama tíma og tíðarandinn í Evrópu kallaði eftir hertum reglum sat þverpólitískur hópur þingmanna við að semja ný útlendingalög á Íslandi. Lögin tóku gildi í ársbyrjun 2017 og þótt þau hafi ekki verið róttæk framför, þá mörkuðu þau skýrari ramma utan um málaflokkinn og gerðu mannúð að meginmarkmiði í meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. 

Ríki sunnan til í Evrópu – sérstaklega Grikkland, Ítalía og Malta, eru oft fyrsti viðkomustaður hælisleitenda og þar með gera sameiginlegar reglur á borð við Dyflinnarreglugerðina ráð fyrir að umsóknir hælisleitenda séu teknar til afgreiðslu þar. Þessi ríki hafa lengi kallað eftir því að önnur Evrópuríki deili byrðunum með þeim, að Evrópa stefni í átt að aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna. 

Þessi sömu ríki eru þau sem þurfa að taka á móti hælisleitendum sem Ísland endursendir til fyrsta viðkomuríkis. Sú harða túlkun íslenskra stjórnvalda, að beita endursendingum þegar þess er nokkur kostur, er þannig beinlínis hluti af vanda ríkja eins og Grikklands. Frekar en að Ísland axli sameiginlega ábyrgð á velferð flóttafólks í Evrópu, þá hefur þeirri ábyrgð verið velt yfir á ríki sem árum saman hafa kallað eftir hjálp.

Pólitísk pattstaða 

Þótt útlendingalögin séu ný, þá eru þau að ýmsu leyti orðin verulega úrelt. Þau endurspegla ekki að Ísland hefur hratt orðið mikið fjölmenningarsamfélag, þar sem innflytjendur eru um 15% mannfjöldans. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að lagaramminn sé mjög þröngur fyrir fólk sem kýs að flytja hingað til lands, sérstaklega utan EES-svæðisins. Þá endurspegla lögin ekki þann veruleika að aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum vegna stríðsátaka, efnahagsástands og afleiðinga loftslagsbreytinga. Allar spár benda til þess að sá hópur muni vaxa á næstu árum og því er mikilvægt að laga kerfið að þeim veruleika.

En hver er stefna stjórnvalda í þessum málaflokki? Í sáttmála stjórnarflokkanna kemst hún fyrir í einni setningu: „Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.“

Þetta endurspeglar náttúrlega grundvallarágreining stjórnarflokkanna í málaflokknum og pólitíska pattstöðu þeirra í milli. Frekar en að setja ríkisstjórninni stefnu í málefnum útlendinga var farin sú leið að henda heitu kartöflunni í nefnd allra flokka á þingi, án þess að segja hvert starf þeirrar nefndar ætti að stefna. Á að endurskoða útlendingalög til að vera opnari fyrir innflytjendum utan EES-svæðisins? Vilja stjórnarflokkarnir að fleiri eða færri hælisleitendum verði veitt alþjóðleg vernd? Um það stendur ekkkert í sáttmála stjórnarflokkanna.

Stefna Sjálfstæðisflokksins, sem fer með málefni útlendinga í ríkisstjórninni, skín hins vegar skýrt í gegnum verk ráðherra hans. Í sama mánuði og nýju útlendingalögin tóku gildi á Íslandi fór Sigríður Andersen á fund evrópskra dómsmálaráðherra þar sem var einu sinni sem oftar verið að ræða leiðir fyrir Evrópuríki að létta álagi af þeim ríkjum sem taka við flestum flóttamönnum í álfunni. Hún kom því skýrt á framfæri að ríkisstjórn Íslands væri ekki til í breytingar í átt til aukinnar samábyrgðar. Og áfram var reynt að fullnýta heimildir Dyflinnarreglugerðarinnar til að senda hælisleitendur úr landi, þótt það væri á sama tíma að ganga fram af hæliskerfum fátækari ríkja í suðurhluta Evrópu. 

Sömu stefnu sýndi Sigríður svart á hvítu fyrir ári, þegar hún kynnti endursendingafrumvarp, þ.e. frumvarp með það markmið „að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er nokkur kostur“. Henni entist ekki tími í embætti til að leggja málið fram, en það gerði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stuttu síðar, en náði ekki að klára málið. Nú er sama frumvarp á þingmálaskrá Áslaugar Örnu Sigubjörnsdóttur. 

Hvað ætli Grikklandi, Möltu og Portúgal þyki um þessar fyrirætlanir Íslands, að festa endursendingar inn í þeirra brotnu hæliskerfi inn í lög? Flokkast það undir ábyrga nálgun ríkja á sameiginlega áskorun að endursenda flóttafólk hvenær sem færi gefst til, svo það verði vandamál annarra?

Sjáum bara toppinn á ísjakanum

Fréttir af fólki sem hefur fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa birst nokkuð reglulega undanfarin misseri, en nýverið fékk ég svar frá dómsmálaráðherra þar sem tölfræði síðustu fimm ára varðandi börn á flótta er dregin saman á einn stað. Hluti þeirra fylgir með þessari grein, en hægt er að kafa ofan í svarið á vef Alþingis. Tölurnar sýna að þær fjölskyldur sem rata í fréttir, sem verður jafnvel til þess að kerfið bregst við á annan hátt, eru rétt toppurinn á ísjakanum. 

Af öllum umsóknum barna um alþjóðlega vernd sem hafa verið afgreiddar á undanförnum 5 árum hefur 60% verið synjað. Af börnunum 235 sem fengu jákvæða niðurstöðu á þessu tímabili höfðu 45 börn þurft að sækja rétt sinn til kærunefndar útlendingamála. Fimmta hvert barn þurfti að áfrýja máli sínu til að fá hæli! Það hlýtur að vera ákveðinn áfellisdómur yfir stjórnsýslu Útlendingastofnunar.

Endursendingafrumvarp Sigríðar Andersen var m.a. viðbragð við því að svokölluðum verndarmálum hefur fjölgað hratt síðustu ár. Það eru mál þar sem fólk er komið með alþjóðlega vernd í öðru landi, en sækir engu að síður um hæli á Íslandi. Dæmi um þetta eru fjölskyldur sem njóta ekki grundvallarmannréttinda eins og heilbrigðisþjónustu eða aðgangs að menntakerfi í hæliskerfinu á Grikklandi. Á síðasta ári voru 42 umsóknir barna afgreiddar sem verndarmál, en höfðu áður varla sést. Við höfum fengið að heyra sögur hluta þessa hóps í fjölmiðlum, en langflest þessara 42 barna hafa verið afgreidd í kyrrþey, til þess eins að vera endursend í hæliskerfi sem er svo illa laskað að það getur ekki tryggt fólki mannsæmandi aðstæður.

Barnasáttmálinn upp á punt?

Útlendingalögin voru samin stuttu eftir að Ísland lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og bera þess merki. Þannig segir í 10. gr. laganna um almenna málsmeðferð: „Ákvörðun sem varðar barn skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.“

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni kemur fram að Útlendingastofnun hefur tekið viðtöl við börn allt niður í 5 ára aldur í tengslum við umsókn um alþjóðlega vernd. Það sést líka að á tímabilinu 2015–2019 hefur hlutfall viðtala aukist, farið úr 10% upp í 23% á síðasta ári. 

Réttindin sem barnasáttmálinn tryggir eiga við um öll börn, en jafnvel þó að aðeins sé litið til þeirra barna sem eru 6 ára eða eldri í tölum dómsmálaráðherra, þá nær hlutfall viðtala ekki helmingi. Þetta er mikið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess sem fram kemur í svarinu: „Foreldrar þeirra barna sem eru í fylgd hafa þó forræði á því hvort viðtal við barn eða börn þeirra fari fram enda fara þau ein með forsjá barnsins eða barnanna“. Íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja öllum börnum sem hér sækja um alþjóðlega vernd rétt til að tjá sig í máli sem það varðar – óháð samþykki foreldra og óháð þroska. Í prinsippinu eiga öll börn þennan rétt, þótt hins vegar beri að meta afstöðu þeirra út frá aldri og þroska. Hér virðist Útlendingastofnun hreinlega mistúlka barnasáttmálann.

Þurfum nýja stefnu til framtíðar

Á síðustu árum hefur staða flóttamanna í heiminum gjörbreyst. Aldrei hafa fleiri verið á flótta og ekki stefnir í að nein breyting verði þar á. Frekar en að bregðast við með því að reisa múra utan um Evrópu til að halda flóttamönnum utan okkar landamæra er mikilvægt að byggja upp kerfi sem getur virkað til framtíðar. Það kerfi snýst um að taka við fleira fólki, sinna því vel og umfram allt snýst það um sameiginlega ábyrgð efnaðari ríkja eins og Íslands til að leggja sitt af mörkum, hjálpast að og veita fólki á flótta vernd. Endursendingastefnan sem hefur verið ráðandi í dómsmálaráðuneytinu árum saman getur ekki haldið til framtíðar. Hún er ómannúðleg gagnvart umsækjendum og veltir vandanum yfir á ríki sem nú þegar eiga fullt í fangi með að sýna flóttamönnum mannúð. Viðbrögð við Covid-19 hafa sem betur fer tímabundið sett endursendingar flóttafólks í frost. Þegar því ástandi linnir væri sómi að því að íslensk stjórnvöld hættu öllum endursendingum á fólki í óviðunandi aðstæður í löndum sem ráða ekki við að tryggja þeim grundvallarmannréttindi.

Greinin birtist í Stundinni 20. mars 2020 og á stundin.is 27. mars 2020.