Skip to content

Sjónarmið ungs fólks verðskulda athygli en ekki tómlæti

Alþingiskosningarnar 2016 vöktu von í brjósti margra. Hlutfall kvenna komst upp í 48% í fyrsta sinn, tveir innflytjendur hlutu föst sæti á Alþingi og meðalaldur var í lægri kantinum, 43 ár. Mörg okkar trúðu því að nú væru bjartari tímar fram undan, að hindranir á grundvelli kynferðis og uppruna væru á undanhaldi og ungt fólk væri að komast til aukinna áhrifa.

Ári síðar kom þó bersýnilega í ljós hversu lítið þarf til að tapa þeim árangri sem hefur áunnist. Hlutfall kvenna hrundi niður í 38%, enginn innflytjandi náði kjöri og meðalaldur kjörinna fulltrúa hækkaði upp í 50 ár. Þó vissulega megi setja þessa þróun í samhengi við það að á sama tíma blésu pólitískir vindar Miðflokknum inn á þing, verður skuldinni ekki skellt á þann flokk einan og sér.

Tómlæti gagnvart sjónarmiðum ungs fólks er verulegt áhyggjuefni. Á tímum þar sem ungt fólk verður stöðugt virkara í baráttunni gegn kynbundnu misrétti, rasisma og loftslagsbreytingum glíma þau eldri við risavaxin verkefni í krafti umboðs síns á Alþingi án samtals, samráðs eða virkrar hlustunar á það sem unga fólkið hefur fram að færa. Fyrir utan hægfara og slök viðbrögð við kröfum ungu kvennanna í #freethenipple og #höfumhátt hefur ekkert verið aðhafst gegn þeim stofnanabundna rasisma sem endurspeglaðist í hræðilegum bruna á Bræðraborgarstíg og Black Lives Matter hreyfingin hefur lítil sem engin áhrif haft á störf þingsins þó tilefnið sé ærið. Vikulegum mótmælum í þágu loftslagsins síðastliðin tvö ár hefur verið mætt með því að töluleg markmið í loftslags­áætlun ríkisstjórnarinnar högguðust ekki um prósentustig á sama tíma. Kröfum stúdentahreyfingarinnar um mannsæmandi kjör var svarað með óbreyttri og allt of lágri grunnframfærslu í nýju námslánakerfi og viðbrögð ráðherra við því að námsfólk vildi njóta atvinnuleysistrygginga á þeim óvissutímum sem voru í sumar voru að „allir vilji fjármagn til að gera ekki neitt“.

Í dag er alþjóðlegur dagur ungmenna, sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka að þessu sinni tækifærum ungs fólks til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins, ýmist með óformlegum hætti eða með beinni þátttöku í formlegum stjórnmálum. Þetta er góður dagur fyrir okkur kjörna fulltrúa að átta okkur á að hagsmunir ungs fólks eru svo samofnir þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir, að það ætti að vera hryggjarstykkið í allri stjórnmálaumræðu. Ef okkur á að takast að breyta öllum kerfum samfélagsins þannig að þau vinni í þágu allra, þá verða fleiri raddir að heyrast. Ungt fólk af öllum kynjum og alls konar uppruna, líkamsgerð og litarhafti hefur reist kröfur sem byggja á mikilvægri reynslu og þekkingu. Það hefur lengi þurft að þola lýðræðishalla þegar kemur að vægi á framboðslistum stjórnmálasamtaka. Þessu þarf að breyta til að stjórnmálin þjóni ungu fólki ekki síður en öðrum þjóðfélagshópum og nýti krafta þess í þágu samfélagsins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. ágúst 2020.