Skip to content

Að halda fókus

Á þessum degi, þann 20. ágúst, árið 2018 skróp­aði Greta Thun­berg í skól­­anum og kom sér fyrir með kröfu­spjald fyrir utan þing­­húsið í Stokk­hólmi. Á þeim tíma sem er lið­inn hefur hún ekki bara sett mark sitt á umræðu um lofts­lags­mál og bar­átt­una fyrir hertum aðgerðum – það hafa orðið straum­hvörf. 

Ein leið til að gera sér grein fyrir því hversu mikið umræðan hefur breyst er að skoða aukna tíðni frétta af lofts­lags­málum í íslenskum fjöl­miðl­um, eins og umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra gerði fyrir rúmu ári. Árið 2017, síð­asta heila árið áður en Greta setti lofts­lags­verk­föllin af stað, var fjallað um lofts­lags­breyt­ingar í tæp­lega 1000 frétt­um. Árið 2019, fyrsta heila árið eftir upp­haf lofts­lags­verk­fall­anna, voru frétt­irnar 2500 tals­ins.

Dregur úr umfjöllun um lofts­lags­mál

Því miður hefur okkur reynst erfitt að halda fókus á bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ingum sam­hliða því að takast á við Covid-19. Þetta sést á tíðni frétta af lofts­lags­mál­um, sem á þessu ári eru orðnar jafn sjald­séðar og fyrir þremur árum.

Þessa dag­ana er rætt um það hvernig sam­fé­lagið á að geta lifað með Covid-19 til lengri tíma. Það snýst ekki bara um það hvernig við lögum okkur að sótt­varn­ar­ráð­stöf­unum eða bregð­umst við efna­hags­legum afleið­ingum henn­ar. Að lifa við breytt ástand þýðir líka að halda áfram fókus á öllu hinu sem skiptir máli. 

Við­brögð við Covid-19 og lofts­lags­breyt­ingum verða að flétt­ast saman

Um allan heim er kallað á það að við­brögð við afleið­ingum Covid-19 þjóni á sama tíma fleiri mik­il­vægum mark­miðum á borð við bar­átt­una gegn lofts­lags­breyt­ingum og því að upp­fylla heims­mark­mið Sam­ein­uðu þjóð­anna. Þetta ákall kemur ekki bara frá hug­sjóna­fólk­inu sem hefur mót­mælt hvern föstu­dag í tvö ár, heldur er þetta kjarn­inn ráð­legg­ingum og stefnu­mörkun flestra alþjóða­stofn­ana. Aðal­rit­ari Sam­ein­uðu þjóð­anna lagði t.d. áherslu á þetta í ávarpi á Degi jarðar. Hann sagði að upp­bygg­ingin eftir Covid-19 yrði að vinna í þágu græns hag­kerfis frekar en hins gráa og að rík­is­stuðn­ingur við fyr­ir­tæki yrði alltaf að vera bund­inn umhverf­is­skil­yrð­um.

Þessar áhersl­ur, sem eru nán­ast orðnar að norm­inu um allan heim, hafa ekki enn náð að móta við­brögð íslenskra stjórn­valda við Covid-19. Sér­stak­lega er þar áber­andi hversu illa er tekið í allar hug­myndir um að skil­yrða rík­is­stuðn­ing til fyr­ir­tækja. 

Tregða til breyt­inga á þingi

Gott dæmi um tregðu stjórn­ar­liða til að skil­yrða stuðn­ing til fyr­ir­tækja er þegar Oddný Harð­ar­dóttir lagði í vor til að fyr­ir­tækjum yrði gert að færa loft­lags­bók­hald sem skil­yrði fyrir upp­sagn­ar­styrkj­um. Þing­maður Vinstri grænna sagð­ist vera „al­ger­lega sam­mála því að skil­yrði eigi að vera um það almennt að fyr­ir­tæki þurfi að færa slíkt lofts­lags­bók­hald og skila því inn,“ en hann var ekki alveg viss hvort „það er rétti vett­vang­ur­inn þegar fyr­ir­tækið er í björg­un­ar­að­gerðum að setja þetta skil­yrð­i.“ Þessi ágæta til­laga Odd­nýjar, sem hefði þess vegna getað komið beint af skrif­borði aðal­rit­ara S.þ., var felld með öllum atkvæðum stjórn­ar­liða ásamt dyggum stuðn­ingi Mið­flokks­ins.

Mik­ill meiri­hluti Íslend­inga vill að stjórn­völd taki lofts­lags­breyt­ingum jafn alvar­lega og Covid-19, en auð­vitað úti­lokar annað ekki hitt. Hvert ein­asta mál sem þingið afgreiðir verður að meta út frá áhrifum þess á lofts­lags­málin og sam­eig­in­lega fram­tíð okkar allra. Alþingi má síst af öllu missa þennan fókus þegar mikil orka fer í að veita gríð­ar­legum fjár­hæðum í neyð­ar­að­gerðir sem hafa mikil áhrif á sam­fé­lag­ið. Við höfum ekki efni á að láta sig­ur­inn á Covid-19 kosta okkur bar­átt­una við lofts­lags­breyt­ing­ar.

Greinin birtist á Kjarnanum 20. ágúst 2020.