Skip to content

Þingið gerði mistök

Þegar okkur verður á í messunni er best að viðurkenna það. Það er mannlegt að gera mistök og þá er rétt að horfast í augu við þau, biðjast afsökunar og bæta ráð sitt. Við Alþingismenn gerðum mistök og nú gefst okkur tækifæri til að bæta upp fyrir þau.

Byrjum samt á því jákvæða. Í lok síðasta árs steig Alþingi gríðarstórt framfaraskref þegar samþykkt var að bjóða upp á hlutlausa skráningu kyns. Áralöng barátta kynsegin samfélagsins birtist á ofureinfaldan hátt sem valmöguleiki í fellivalmynd hjá Þjóðskrá: „Kynsegin/annað.“ Það sem af er ári hefur Þjóðskrá afgreitt 34 beiðnir um leiðrétta skráningu á kyni. Þrjátíu og fjórir einstaklingar sem loksins geta skráð sig eins og þau vilja og er fullt tilefni til að senda þeim, vinum og fjölskyldu hamingjuóskir.

En þá komum við að klúðrinu. Okkur á Alþingi yfirsást svolítið þegar við samþykktum lög um kynrænt sjálfræði. Þessir 34 einstaklingar hafa þurft að reiða fram 9000 krónur fyrir þennan mikilvæga áfanga. Ég efast stórlega um að það hafi verið raunverulegur vilji alþingismanna að hafa þennan hóp að féþúfu, líta á kynskráningu þeirra sem sérstaka tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Einhverjum kann ekki að þykja 9000 krónur há upphæð – en þó að þetta væri ódýrara þá væri þetta samt óréttlátt.

Jafnræði og sanngirni

Þetta snýst enda um jafnræði. Hvernig getum við réttlætt að af þeim 17 atriðum sem skráð eru í þjóðskrá séu breytingar á kyni og nafni þær einu sem rukkað er fyrir? Þjóðskrá er ein mikilvægasta grunnskrá hins opinbera, með grundvallarupplýsingum um alla einstaklinga í landinu, og það eru beinlínis markmið laga um skráningu einstaklinga að skráin sé áreiðanleg. Níu þúsund króna gjaldtaka fyrir breytingar á einstaka liðum er til þess eins fallin að letja fólk frá því að reiða fram áreiðanlegar upplýsingar. Það þjónar ekki almannahag og það þjónar ekki markmiðum laganna.

Að sama skapi snýst þetta einfaldlega um sanngirni. Þessar 9000 krónur, sem 34 einstaklingar hafa þurft að borga það sem af er ári, eru upphæð sem ríkissjóð munar ekki neitt um. En þetta eru 9.000 krónur sem þessa einstaklinga getur vel munað um, eins og Trans Ísland hefur bent á.

Trans fólk er jaðarsett, jafnt hér á landi sem annars staðar, og því ekki sjálfsagt mál að það geti reitt fram þessa fjárhæð. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður; t.a.m. er trans fólk líklegra til að eiga erfitt með að fá vinnu, erfiðara með að fá húsnæði og ganga í skóla sökum mismununar og fordóma. Svo er ekki hægt að horfa fram hjá því að trans fólk er oft í dýru ferli. Það þarf að greiða lyfjakostnað. Það þarf að greiða fyrir meðferðir eða aðgerðir tengdar ferlinu sem oft falla að allt of litlu leyti undir þak sjúkratrygginga.

Kostnaði hrúgað á fólk

Á meðan Alþingi hefur ekki leiðrétt þessi mistök sín í lögunum þá tók Trans Ísland það að sér að stofna styrktarsjóð fyrir fólk sem vildi leiðrétta kynskráningu hjá Þjóðskrá. Þannig á það ekki að þurfa að vera. Það á einfaldlega að vera þannig að þessi skrá sé ókeypis.

Það verður ekki heldur litið hjá því að þegar búið er að leiðrétta skráningu kyns og nafns í Þjóðskrá þá er ýmis annar kostnaður sem hið opinbera mun fá greiddan frá því fólki. Fólk þarf að kaupa sér ný vegabréf fyrir 13.000 krónur, nýtt ökuskírteini fyrir 8000 krónur – þannig að þessi tilgangslausi 9000 krónu upphafskostnaður bara hrúgast ofan á önnur útgjöld. Útgjöld sem ríkið ætti ekki og þarf ekki að leggja á fólk.

Lögum mistökin 

Því hef ég, í samfloti við 11 aðra þingmenn, lagt til að þessi gjaldtaka verði afnumin. Frumvarp mitt er einfalt og ég vona að það nái hratt og vel fram að ganga. Við þurfum að horfast í augu við það að þingið gerði mistök þegar það ákvað að fólk þyrfti að borga 9000 krónur til að leiðrétta skráningu kyns. Þetta frumvarp snýst bara um það að leiðrétta mistök og afnema transskattinn.

Transskatturinn er óréttlátur því hann gengur gegn þeirri almennu reglu að breytingar á þjóðskrá séu gjaldfrjálsar. Hann er til óþurftar vegna þess þjóðskrá verður lélegri grunnskrá en ella og hann er ósanngjarn af því að hann gerir hóp fólks að féþúfu. Hóp sem við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við.

Greinin birtist upphaflega á Vísi 15. mars 2021.