Skip to content

Tuttugu aðgerðir – ekkert kjaftæði

Píratar leggja sérstaka áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og var stefna flokksins talin sú metnaðarfyllsta af Ungum umhverfissinnum. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru tækifæri til góðra breytinga á samfélaginu – baráttan gegn loftslagsbreytingum er á sama tíma baráttan fyrir sanngjarnari heimi, samfélagi sem tekur meira tillit til fólks og náttúru.

Nýsköpun er mikilvægur kjarni í loftslagsaðgerðum. Árangur okkar í loftslagsmálum veltur m.a. á því að ótal grænir sprotar nái að spretta. Þess vegna eru Píratar með framsækna nýsköpunarstefnu í 20 liðum, sem hljómar svona í mjög stuttu máli:

 1. Stórauka stuðning við uppbyggingu og rekstur þróunarsetra.
 2. Einfalda stofnun, skattaumhverfi og rekstur nýsköpunarfyrirtækja.
 3. Einfalda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja.
 4. Áhersla á nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins, ekki bara nýsköpun sem byggir á hátækni.
 5. Heildrænna, aðgengilegra, sveigjanlegra og kvikara styrkjaumhverfi.
 6. Stórauka fjármagn til ýmissa styrktar- og nýsköpunarsjóða.
 7. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki á öllum stigum vaxtar.
 8. Gera vistkerfi nýsköpunar aðlaðandi fyrir alþjóðlega frumkvöðla.
 9. Aukinn stuðningur við alþjóðlega sókn nýsköpunarfyrirtækja.
 10. Gera atvinnustarfsemi á Íslandi aðlaðandi fyrir alþjóðleg fyrirtæki.
 11. Setja á fót alþjóðlega miðstöð þekkingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
 12. Stofna Nýsköpunarráð sem leiðir vinnu við eflingu vistkerfis nýsköpunar á Íslandi.
 13. Tryggja fræðslu og þátttöku í nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins.
 14. Styðja uppbyggingu Vísindagarða og styrkja tengsl atvinnulífsins við rannsóknir og frumkvöðlastarf innan háskólanna.
 15. Hvatning til atvinnulausra einstaklinga að taka þátt í nýsköpun.
 16. Nýsköpun og stafræn umbylting verði sett á oddinn innan opinbera geirans.
 17. Aukin símenntun í takt við tækni- og samfélagsbreytingar.
 18. Áhersla á útboð áskorana í stað fyrirfram skilgreindra lausna í opinberum innkaupum.
 19. Áhersla á aukið gagnsæi, opin gögn og frjálsan hugbúnað í stjórnsýslu.
 20. Byggja ekki aðeins upp sterkt frumkvöðlastarf, heldur líka grænt, skapandi og lifandi samfélag sem er hvetjandi til nýsköpunar alls staðar.

Með nýsköpunarstefnu, sem má nálgast hér í heild sinni, sem spilar saman við loftslagsáherslur, menntakerfi og verkalýðsmál getum við stefnt að sjálfbæru samfélagi fyrir framtíðina. Vöxum út úr loftslagskrísunni sem sterkara og betra samfélag. Framsýni – Ekkert kjaftæði.

Greinin birtist á Vísi 20. september 2021.