Hata karlar konur?

Á tyllidögum er sagt að hvergi sé jafnrétti kynjanna lengra komið en hér á landi. Stundum klórar maður sér í kollinum og spyr hvort það geti virkilega verið. Þrjú nýleg dæmi ættu að vekja flest jafnréttisþenkjandi fólk til verulegrar umhugsunar.

Kennari við framhaldsskóla mælir í bloggfærslu með því að að kynferðisofbeldi sé beitt gegn sakborningum í níumenningamálinu, í gríni að sagt er. Áður hafði hann sýnt brengluð viðhorf til ofbeldis, þegar hann setti athugasemd á Facebook um kvenkyns borgarfulltrúa: „Undir niðri dauðlangar hana í nauðgun, það er nú heila málið.“ Fyrstu viðbrögð skólans eru ekki að taka karlinn á teppið, heldur að snupra manninn sem benti á ummælin í lesendabréfi.

Karlkyns saksóknari talar svo niðrandi um konuna sem tekur við embættinu í fjarveru hans, að hún sér þann kost einan í stöðunni að leggja fram kæru. Í samtali við fjölmiðla telur karlinn málið allt hið fáránlegasta og ómerkilegt hafi verið af konunni að leggja fram kæruna, en hann sé ánægður með að saksóknari hafi látið málið falla niður.

Yfirmaður hjá opinberu hlutafélagi áreitir samstarfskonu sína svo gróflega kynferðislega að fyrirtækið er dæmt til að greiða henni 1,8 milljónir í miskabætur. Innan fyrirtækisins ganga undirskriftalistar, þar sem stuðningi er lýst við brotamanninn – umfjöllun fjölmiðla þyki ómakleg, þrátt fyrir að dómurinn hafi þótt nokkuð afgerandi.
Þykir í lagi að saksóknari geri lítið úr kæru, að því er virðist annað hvort vegna þess að á henni er kynjavinkill, eða vegna þess að hún beinist óþægilega gegn honum sjálfum?

Þykir í lagi að fyrirtæki í opinberri eigu leyfi undirskrifasöfnun gegn fórnarlambi kynferðislegrar áreitni að viðgangast?

Þykir í lagi að starfsmaður skóla breiði út kvenfjandsamlegan hatursboðskap?

Er það nema von að maður spyrji í anda spennusagnanna: Hata karlar konur?

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.

Fékk afsagnarflugu í höfuðið

Undanfarið hafa margir fengið þá flugu í höfuðið að afsagnir séu allra meina bót. Þó góð afsögn geti átt vel við, þá má orðið varla nokkuð koma upp á án þess að stokkið sé til og þess krafist að einhver axli pólitíska ábyrgð á uppákomunni með því að segja af sér.Framarlega í flokki þeirra sem hafa tekið tískunni um afsagnir opnum örmum er Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 16. febrúar segir Helgi að nýfallinn dómur vegna skipulags í Flóahreppi sé slíkur áfellisdómur yfir störfum umhverfisráðherra, að einungis ein leið sé fær: „Mér þykir leitt að segja það en þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim að umhverfisráðherra segi af sér.“

Þetta mætti reyndar túlka sem mildun í afstöðu Helga, en hann hvatti í ársbyrjun til þess að umhverfisráðuneytið í heild sinni væri lagt niður. Enda stangast tilvist ráðuneytisins væntanlega á við eitt meginmarkmið í lögum Samtaka iðnaðarins, sem er að ryðja öllum hindrunum úr vegi starfsemi iðnaðarins.
Helgi vill sumsé að Svandís Svavarsdóttir taki pokann sinn fyrir að fá á hreint hvort lög leyfi Landsvirkjun að bjóða ýmsa fyrirgreiðslu sem virðist alls ótengd útgjöldum sveitarfélags, til að liðka fyrir vinnu við aðalskipulag vegna virkjunar. Er nema von að ráðherranum hafi brugðið?

Eins og spurt var hér á Smugunni í vikunni: Hvað kemur vatnsveita skipulagi Urriðafossvirkjunar við?

Að fengnum dómi Hæstaréttar stendur stóra pólitíska spurningin eftir: Þykir almenningi eðlilegt að lögin leyfi fyrirgreiðslu af þessu tagi, eða væri almannahagsmunum betur borgið með breyttu lagaumhverfi? Mætti ekki frekar krefjast þess að umhverfisráðherra endurskoði lagaumhverfið með almannahagsmuni fyrir augum og lagi það sem betur mætti fara? Er ekki fullhart að krefjast þess að ráðherrann segi af sér?

Fordæmi slíkrar naflaskoðunar er nærtækt, og ætti að vera Helga Magnússyni vel kunnugt. Fyrir stuttu féll dómur suður í Strassborg, sem snerti lagaumhverfi Samtaka iðnaðarins. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu, að iðnaðarmálagjald sem lagt var á veltu íslenskra fyrirtækja stangaðist á við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi. Dómurinn var SI að vonum mikil vonbrigði, enda munaði eflaust um þær 420 milljónir króna sem samtökin fengu í gegnum iðnaðarmálagjald árið 2010. Í fréttatilkynningu sagði að niðurstaðan hefði komið SI sérstaklega á óvart, þar sem hún stangaðist á við tvo dóma Hæstaréttar. En meira að segja Hæstarétti Íslands getur skjöplast.

Viðbrögðin við áfellisdómi mannréttindadómstólsins voru hvorki sú að krefjast afsagnar iðnaðarráðherra, sem innheimti ólöglegu gjöldin, né að formaður Samtaka iðnaðarins segði af sér, fyrir að þiggja þau. Viðbrögðin við áfellisdómi vorsins 2010 voru að „óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um framhald málsins og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við.“ Eða: hvernig ríkið myndi redda samtökunum sínum 420 milljónum með einhverjum öðrum ráðum.

Úr varð hins vegar að iðnaðarráðuneytið lagfærði lagaumhverfið, þannig að ekkert var lagt til reksturs Samtaka iðnaðarins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011. Eðlilega, myndu margir segja, enda byggði framlagið á stjórnarskrárbroti.

Það er nokkuð undarlegt að fylgjast með jafnróttækum sinnaskiptum og hjá formanni Samtaka iðnaðarins. Í apríl á síðasta ári þótti honum dómur Mannréttindadómstóls Evrópu ekki þurfa að leiða til afsagnar, en eðlilegt væri að bæta úr ágöllum sem dómurinn leiddi í ljós. Tæpu ári síðar þykir sama formanni dómur Hæstaréttar vegna Flóahrepps hins vegar kalla á afsögn umhverfisráðherra.

Vera má að breyttar áherslur formanns SI séu viðbrögð við tekjumissinum sem samtökin urðu fyrir nú um áramótin. Nú reiða samtökin sig nær alfarið á óblíð markaðsöflin eftir að 420 milljóna ríkisstyrkurinn var dæmdur ólöglegur. Framlög til þeirra ráðast því að nokkru af því hversu hátt heyrist í þeim. Og kröfur um afsögn ráðherra eða niðurlagningu ráðuneytis eiga það til að skapa mikil læti.

En kannski er hér um raunverulega nýjan anda innan Samtaka iðnaðarins að ræða. Sé svo, þá myndi formaður SI í dag sennilega vilja senda sjálfum sér í apríl á síðasta ári opið bréf með kröfunni: „Mér þykir leitt að segja það en þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim að formaður Samtaka iðnaðarins segi af sér.“

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.

Hamborgarafriðurinn senn úti?

Fræðimenn í alþjóðastjórnmálum hafa undanfarin ár átt erfitt með að hrista af sér djúpstæða gagnrýni á verk sín. Hvernig stóð á því, spyrja gagnrýnendur, að öllum heimsins fræðingum mistókst að sjá fyrir hrun kommúnismans?

Svipuð gagnrýni hefur svosem heyrst upp á síðkastið tengslum við hrun íslenska bankakerfisins og sofandihátt íslenska fræðasamfélagsins.

Nú bregður svo við að tíðindi berast sem gefa framtíðarþenkjandi fræðingum byr undir báða vængi. McDonald’s er að loka á Íslandi. Horfum stundarkorn framhjá þeirri skemmtilegu íróníu að þetta er veitingastaðurinn sem tróð fyrsta hamborgaranum upp á Davíð Oddsson meðan hann var forsætisráðherra. Nóg er annars að skoða.

Hvert er spágildi þess að McDonald’s er að hverfa af landi brott? Jú, einhver er búinn að átta sig á því, að öðruvísi verður ekki hægt að magna Icesavedeiluna meira en þegar er orðið. Einhver er að búa sig undir að fara í stríð gegn Bretum og Hollendingum.

Þessi tilgáta byggir á kenningu eftir blaðamanninn Thomas Friedman, sem tók eftir því að aldrei hefði brotist út stríð á milli tveggja ríkja sem bæði hefðu McDonald’s veitingastaði. Frá því að Friedman setti fram kenningu sína um hamborgarafriðinn hefur sýnt sig að hún er tölfræðilega séð ein sú traustasta í alþjóðasamskiptum — raunar eru átök Rússlands og Georgíu á síðasta ári fyrsta og eina dæmið sem ekki passar í hamborgarakenninguna.

Þá stendur eftir stóra spurningin: Hvaða stríðsæsingarhópur stendur að baki brottvikningar McDonald’s frá Íslandi?

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.

Samruni í söngvagæru?

Undanfarin ár hefur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – Eurovision – stækkað hröðum skrefum, og á sama tíma hefur hún dregið æ meiri dám af alþjóðakerfi stjórnmálanna. Háværar raddir eru um blokkamyndun og frændsemi. Almennt skítkast út í aðrar þjóðir er orðið regla frekar en undantekning – sem þessa dagana birtist helst í ásökunum um að austantjaldslöndin séu í klíku.

Þessi þróun er þó ekki algjörlega ný af nálinni. Djúpur pólitískur boðskapur, sem og grunur um að þátttökulönd hafi óhreint mjöl í pokahorninu, hefur verið samofinn keppninni frá ómunatíð.

Áhugi Íslendinga á Eurovision er gífurlegur, en gagnrýnileysið sætir furðu. Hvernig stendur á því að andstæðingar Evrópusambandsaðildar Íslands sitja þegjandi undir samrunaáróðri söngvakeppninnar?

Georgíudeilan

Þetta árið hljóta allir réttþenkjandi Eurovisionaðdáendur að hugsa Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva þegjandi þörfina vegna heigulsháttar. Í ár fór nefnilega eitt ríkið fram á að framlag annars ríkis yrði ritskoðað. Þessu urðu skipuleggjendurnir við, og fóru fram á að Georgía breytti laginu sínu til að minnka fýluna í Rússunum. Georgíumenn stóðu fast á sínu, þannig að úr varð að þeir hættu við keppni.

Enn og aftur sigraði rússneski björninn.

En hvað mislíkaði Rússum svona svakalega? Jú, lag Georgíumanna bar heitið „We Don‘t Wanna Put In,“ og var (augljóslega) beint að Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands.

Þetta er sami Vladimír Pútín og leiddi Rússland í stríð við Georgíu í ágúst á síðasta ári, undir því yfirskini að vilja frelsa Abkasíu og Suður-Ossetíu. Munurinn í stærð og styrk herjanna var gífurlegur. Hundruð manns létust, hundruð þúsunda þurftu að flýja heimili sín, eignatjón var geysilegt og Georgíuher var í rjúkandi rústum eftir átökin.

Í þessu samhengi er ekki skrýtið að gagnrýni á Rússa hafi átt upp á pallborðið hjá tónlistaráhugamönnum í Georgíu.

Og hver voru annars þessi hræðilegu vers sem þurfti að afmá? Í lauslegri þýðingu gæti textinn verið einhvern veginn svona: „Við viljum ekki Pútín, því þessi fýlupúki er að drepa allt fjör. Ég ætla frekar að skjótast á diskó í kvöld og dilla mér við þig.“

Svona lagað má náttúrulega ekki segja í siðmenntaðri söngvakeppni! Að einhver vilji frekar dansa en deyja – fussumsvei!

Guði sé lof að Páll Magnússon, og allir hinir sjónvarpsstjórarnir í Evrópu, settu þessum diskódrósum stólinn fyrir dyrnar.

Lýrískur tvískinnungur

Skipuleggjendur keppninnar báru fyrir sig reglur hennar þegar þeir bönnuðu Georgíumönnum að atast í Rússum. „Óheimilt er að vera með texta, ræður eða látbragð sem er pólitísks eða annars viðlíka eðlis,“ sagði talsmaður keppninnar.

En það er í þessu eins og svo mörgu öðru, að það er ekki sama hvort söngvarinn er Jón eða séra Jón. Tökum Ísrael sem dæmi.

Frá upphafi hefur Ísrael reynt á pólitískt þanþol Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva. Ísrael er auðvitað ekki evrópskt ríki, svo þátttaka þess í keppninni ein og sér er vafasöm – en raunar hefur fjöldi ríkja utan Evrópu þátttökurétt. Sökum sönggleði Ísraela kjósa öll þau arabaríki sem hafa þátttökurétt (og þau eru nokkur) að sniðganga keppnina. Undantekningin er reyndar Marokkó, sem nýtti tækifærið þegar Ísrael heltist úr lestinni 1980.

Það teljast því nokkur tíðindi að framlag Ísraels þetta árið sé sungið á arabísku – auk hebresku og ensku – enda nærri þrír áratugir liðnir síðan arabaríki sendi lag í keppnina.

Árið 2007 var ísraelska lagið á þremur tungumálum, líkt og nú, en pólitíski boðskapurinn var ögn beittari en gengur og gerist. „Push the Button“ hét lag sveitarinnar Teapacks, og braut það blað í sögu keppninnar þar sem það var sungið á hebresku, ensku og frönsku. Þrátt fyrir þetta tímamótaskref, og þrátt fyrir að lagið væri hið fjörugasta, hlaut það ekki náð fyrir augum kjósenda og komst ekki upp úr undakeppninni.

Það verður samt varla annað sagt en að textinn hafi verið býsna pólitískur. Lagið er ádeila á stjórnvöld í Íran, og beinir gagnrýni sinni meðal annars að hægagangi alþjóðasamfélagsins gagnvart áætlunum Írana til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Titill lagsins er augljós vísun í „hnappinn“ sem þjóðarleiðtogar nota til að senda kjarnorkuflaugar af stað, en fleiri gullkorn leynast í textanum.

„Það eru brjálaðir einvaldar, sem liggja í leyni og reyna að blekkja okkur,“ sungu Teapacks um stjórnvöld í Íran. „Sökum djöfullegs og tæknistýrðs vilja síns til að valda skaða ætla þeir að þrýsta á hnappinn.“

Þótti RÚV og félögum þetta ekki vera pólitískur áróður?

Meira að segja flytjendurnir áttuðu sig á því að þeir væru að reyna á mörk þess sem sanngjarnt gæti talist, eins og sést á einni hendingu lagsins: „Kannski er þetta of beitt. Við ættum að syngja lög um pálmatré.“

Ef eitt gengi yfir alla, þá hefðu Teapacks sungið um pálmatré 2007 – ja, eða Georgía fengið að atast aðeins í Rússum 2009.

Það væri ósanngjarnt að tala um pólitískan áróður í söngvakeppninni, án þess að minnast á Dönu International, sem árið 1998 varð fyrsti transgender sigurvegari keppninnar. Hún nýtti tækifærið til góðs, þar sem hún leit ekki einungins á sigurinn sem viðurkenningu sönghæfileika sinna, heldur sem mikilvægt skref í réttindabaráttu transgender fólks. „Sigur minn sýnir og sannar að Guð stendur með mér,“ sagði hún að keppninni lokinni. „Ég er það sem ég er, en það þýðir ekki að ég trúi ekki á Guð, eða sé ekki hluti af þjóð Gyðinga.“

Svona boðskapur leyfist víst varla í Rússlandi, þar sem gleðigöngur samkynhneigðra eru barðar niður af vopnuðum lögregluþjónum.

Bylting og bæling sama ár

Hræðslan við pólitískan áróður í söngvakeppninni á mögulega rætur sínar að rekja til ársins 1974, sem hlýtur að teljast eitt hið viðburðaríkasta í sögu keppninnar. Keppninnar er helst minnst fyrir sigurlagið Waterloo með ABBA, en önnur lög höfðu mikil áhrif, þó á staðbundnari hátt væri.

Portúgal hafði verið undir hæl fasískrar herforingjastjórnar frá árinu 1926. Þeirri stjórn var velt úr sessi í byltingu sem hófst með Eurovision. Leiðtogar uppreisnarinnar höfðu komið sér saman um að hefjast handa þegar keppandi Portúgals stigi á svið í keppnishöllinni. Svo varð, og þremur vikum síðar voru herforingjarnir komnir frá völdum og lýðræði fest í sessi.

Pólitískur áróður þarf nefnilega ekki alltaf að hafa neikvæðar afleiðingar.

Verra var með ítalska ríkissjónvarpið þetta árið. Ástarlagið sem Ítalir sendu í keppnina hét „Si,“ og fjallar um það að söngkonan játast ástmanni sínum. Fyrir vikið kemur orðið „já“ sextán sinnum fyrir í textanum, sem ritskoðunarnefndin á Ítalíu gat ekki sætt sig við – og lagið var því aldrei sýnt í heimalandinu.

Sjónvarpsstöðin greip til þessa ráðs vegna þess að óttast var að lagið gæti heilaþvegið þjóðina. Mánuði eftir Eurovision greiddu Ítalir þjóðaratkvæði um lögleiðingu hjónaskilnaða, og var óttast að já-lagið gæti haft óeðlileg áhrif á kosningarnar.

Ritskoðunin heppnaðist. Skilnaður varð ekki löglegur þetta árið.

En hvað með ESB?

Þessa dagana má náttúrulega ekki nefna nokkurn hlut án þess að hann sé tengdur Evrópusambandinu og samskiptum Íslands við það. Þess vegna skýtur skökku við hversu hljótt er í búðum Evrópuandstæðinga þegar kemur að Eurovision.

Þetta kann að hljóma hjákátlegt, en raunin er sú að margt er líkt með skyldum. Ef sköpunarsaga Eurovision og ESB er borin saman, kemur í ljós að ræturnar eru þær sömu.

Sagan er nokkurn veginn svona: Evrópa var í rústum eftir seinni heimsstyrjöldina. Fólk var almennt sammála um að vilja ekki endurtaka leikinn. Þá datt einhverjum það snjallræði í hug að binda ríki álfunnar þétt saman á sem flestum sviðum, og byggja upp samhug innan hennar.

Það er enda engin tilviljun að fyrsta Eurovisionkeppnin var haldin 1956, og að ári síðar var skrifað undir Rómarsáttmálann, sem lagði grunninn að Evrópubandalaginu – forvera Evrópusambandsins.

Og ættarsvipurinn sést víða.

Sigurvegari Eurovision árið 1956 var Sviss, en grunur leikur á að lýðræðishalli hafi tryggt þann sigur. Það árið komust fulltrúar Lúxemborgar í dómnefnd ekki til keppninnar, en framseldu atkvæðarétt sinn til svissnesku dómnefndarinnar. Það árið hafði hvert þátttökuland tvö atkvæði, og mátti þar að auki greiða sjálfu sér atkvæði. Þarna sátu því Svisslendingar með fullar hendur atkvæða, og gátu tryggt sér sigur, þökk sé samtryggingarkerfi smáríkjanna.

Báðar stofnanirnar, sambandið og söngvakeppnin, höfðu það frá upphafi að markmiði að sameina og styrkja Evrópu. Eurovision hafa Íslendingar gengist vandræðalaust á hönd, en enn er deilt um gagnsemi Evrópusambandsins.

Málum er öðruvísi farið í hinum enda álfunnar, þar sem Tyrkir vita vel hvað klukkan slær. Sú ofuráhersla sem þeir leggja á gott gengi í Eurovision þjónar þeim göfuga tilgangi að auka hróður lands og þjóðar. Jafnframt kemst landið ofar í vitund samrunasinna, og eygir von um að hljóta náð fyrir augum Olla Rehn stækkunarstjóra ESB – að því gefnu að hann horfi á Eurovision.

Væri maður gefinn fyrir samsæriskenningar, þá væri hægt að segja að Tyrkir noti Eurovision sem bakdyr að Evrópusambandinu, en ESB hafi notað keppnina til að heilaþvo æsku Íslands til að verða jákvæðari í garð sambandsins.

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.

Gleðibankahrunið

Gjarnan er sagt að nokkrir tugir viðskipta- og stjórnmálamanna beri ábyrgð á efnahagshruninu síðasta haust. Með því að líta ríflega tvo áratugi aftur í tímann má hins vegar sjá að hinir raunverulegu höfuðpaurar hrunsins voru Eiríkur Hauksson, Helga Möller og Pálmi Gunnarsson. Þau þrjú, sem kenndu sig við ICY Group, skákuðu í skjóli Magnúsar Eiríkssonar, Gleðibankastjóra.

Útrásin sem mistókst

Um miðjan níunda áratuginn voru Íslendingar í bullandi útrás. Jón Páll Sigmarsson reyndist manna sterkastur árið 1984 og Hólmfríður Karlsdóttir kvenna fegurst ári síðar. Þessi árangursríki útflutningur þjóðargersema fyllti aðstandendur Gleðibankans von um að vel myndi ganga í Eurovision söngvakeppninni árið 1986.

Sú varð nú ekki raunin. Evrópa var ekki tilbúin fyrir Ísland, sagði einn útrásarvíkingurinn í blaðaviðtali. Útrásarsöngurinn átti ekki upp á pallborðið ytra.

Í aðdraganda söngvakeppninnar velktist varla nokkur maður í vafa um að Evrópumarkaður væri tilbúinn fyrir nýjan, íslenskan banka. Sumir höfðu þó áhyggjur af því að Íslandi gæti reynst erfitt að axla þá ábyrgð sem fylgdi sigri í keppninni. Þær áhyggjur urðu þó ekki til að hægja á útrásinni, frekar en ábyrgð þjóðarinnar á innistæðum á Icesave-reikningum hægði á nokkrum sköpuðum hlut.

Þjóð í hlekkjum myndlíkingar

Íslenska þjóðernisútrásin virðist hafa náð heilmiklum samhljómi með hjörtum landsmanna. Í það minnsta urðu það algild sannindi að hérlendir karlmenn væru sterkir og konur fagrar. Árangur þjóðarinnar í alþjóðlegum söngvakeppnum var ekki jafnmikið ræddur, en skyldi ekki eitthvað hafa eimt eftir af Gleðibankaáhrifunum? Gæti verið að þjóðin – sem gat ekki fengið nóg af Jóni Páli og Hófí – hafi lagt sig eftir boðskap textans í Gleðibankanum?

Trúðum við þessu virkilega?

Atburðir síðustu mánuða benda til þess að útrás níunda áratugarins hafi ekki einasta fengið landsmenn til að trúa því að karlarnir okkar væru sterkastir og konurnar sætastar, heldur hafi söguheimur Gleðibankans náð að hreiðra um sig í þjóðarsálinni.

Hérna liggja ef til vill rætur efnahagshrunsins, því ábyrgur rekstur raunverulegs banka getur tæpast tekið mið af viðskiptamódeli Gleðibankans. Mennirnir sem sagt er að sett hafi landið á hausinn voru hins vegar ungir og áhrifagjarnir árið 1986, þannig að þeir vissu ekki betur. Þeir skildu textann þannig að lífsgleðin sjálf felist í rekstri banka.

Í Gleðibankanum eru spunnir saman tveir þræðir. Annars vegar er sungið um nægjusemi og notalegheit. Lagið er lítið og kósí, sem og gleðihúsið sem viðkomandi býr í. Hinn þráðurinn er öllu dekkri, en þar prédikar ICY-flokkurinn fjárhagslega óráðsíu. „Leggur ekkert inn, tekur bara út,“ er boðskapurinn sem tryggði sérstökum vinum bankanna vildarkjör síðustu árin. „Syndir þínar sem þú aldrei drýgðir,“ er viðmót þeirra sem settu bankana á hausinn – þeir þykjast vera saklausir.

Öllum öðrum kennt um

Í kjölfar Gleðibankahrunsins greip um sig mikil reiði, líkt og gerðist þegar raunverulegu bankarnir hrundu á haustdögunum. Aðstandendur lagsins báru fyrir sig, að þeim hefði ekki gengið sem skyldi að hafa áhrif á erlendu dómnefndirnar. Gordon Brown var álíka stirðbusalegur í haust.

Þá var jafnvel gripið til þess að vera með skítkast út í þrettán ára stelpu, sem þótti hafa átt nokkurn hlut í hruninu. Það er þó spurning hvort hlutur Söndru Kim í hruni Gleðibankans hafi verið stærri en hlutur Lehman Brothers í nýja hruninu.

Um vorið fyrir 23 árum mátu sumir ósigur Gleðibankans sem nokkurs konar áfangasigur. Ein öflugasta Pollýanna útrásarinnar var leiðarahöfundur Morgunblaðsins:

Í þessu efni verða þjóðir að sýna þolinmæði og þrautseigju og bíða þess með bros á vör, að þær detti í lukkupottinn. […] Fyrir tilstilli Gleðibankans höfum við komið því á framfæri við stærri hóp fólks, að við erum hluti Evrópu, en með nokkru öðru tiltæku ráði. Það eitt er góður árangur.

Magnús Eiríksson, höfundur Gleðibankans, má líka eiga það að hann tók hruninu betur en flestir útrásarvíkingar samtímans. Kvöldið sem ósigurinn varð ljós lét hann blaðamann DV hafa eftirfarandi eftir sér: „Við verðum að gera okkur grein fyrir að það er ekki hægt að gleypa heiminn svona í fyrstu atrennu.“

Ætli við verðum ekki að gera okkur grein fyrir því aftur?

Pistillinn birtist upphaflega á Smugunni.